22/12/2024

Óvanaleg uppskera úr kartöflugarði

Undanfarið hefur fólk verið í óðaönn að taka upp kartöflur fyrir veturinn og sprettan er víðast hvar ágæt. Hvergi hefur þó uppskeran slegið við afrakstri Hólmvíkinganna Kristbjargar Jónsdóttur og Maríusar Kárasonar í ár, svo vitað sé. Fyrir utan óvanalega góða kartöflusprettu og lítið af smælki þá kom í leitirnar giftingahringur Kristbjargar, gullhringur sem glataðist á meðan hún setti niður kartöflur í kartöflulundinn sinn fyrir rúmum 30 árum.

 "Ég man ekki nákvæmlega hvaða ár þetta var en þá tók ég af mér hringinn og geymdi hann inni í bíl meðan ég rótaði í moldinni. Krakkarnir tóku hann þaðan og léku sér með hann og misstu hann í moldina. Þar er hann svo búinn að liggja þar til fyrir nokkrum dögum að yngsta dóttir mín, sem var ekki fædd þegar hann týndist fann hann í moldinni" segir Kristbjörg.

Það sér ekki á gullhringnum eftir að hafa legið í moldinni öll þessi ár og grafið nafn Maríusar kom í ljós þegar hann var hreinsaður. "Hann passar ekki lengur upp á fingurinn á mér, en mér finnst það furðulegt að hann skuli hafa fundist eftir öll þessi ár" segir Kristbjörg, "en þarna eru ótal vélar búnar að tæta upp moldina í gegnum tíðina".