22/12/2024

Óskað eftir tilboðum í slökkvibíla

Hólmavíkurhreppur hefur auglýst til sölu tvær slökkvibifreiðar sem hafa fyrir löngu síðan sýnt allar sínar bestu hliðar og eru orðnar lúnar og lasnar. Þetta eru bílarnir T-387 sem er Bedford árgerð 1962 og T-699 sem er Chervolet Suburban árgerð 1972. Ekki er búist við að bifreiðirnar seljist fyrir metfé, þó vissulega séu þær allt að því ómetanlegar fyrir áhugamenn um lagfæringar gamalla bíla, safnara sem einbeita sér að söfnun slökkvibíla og aðra áhugamenn um sögu slökkvistarfs á landsbyggðinni.

Tilboð og fyrirspurnir hafa reyndar þegar borist hreppnum, en tilboð á að senda á skrifstofu Hólmavíkurhrepps fyrir 17. maí n.k. eða í tölvupósti á netfangið holmavik@holmavik.is. Nánari upplýsingar eru veittar í síma 861-4806. 

Í sárabætur fyrir slökkvibílana gömlu fær slökkviliðið á Hólmavík tækjabíl sem hreppsnefnd hefur samþykkt kaup á.