19/09/2024

Örnefnastofnun gefur álit

Leið ehfSveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti á fundi sínum þann 14. mars að svara erindi Leiðar ehf. frá 10. febrúar um nafn á væntanlegan veg um Arnkötludal og Gautsdal. Sveitarstjórnin samþykkti að leggja til að talað verði um Arnkötludalsveg. Þetta er í samræmi við niðurstöðu sveitarstjórnar Hólmavíkurhrepps frá 1. mars síðastliðinn. Aðstandendur Leiðar ehf báðu um álit Örnefnastofnunar á nafngiftinni og óskuðu þess við strandir.saudfjarsetur.is að koma álitinu á framfæri til lesenda fréttavefjarins, sem hér fer á eftir.

Í lok liðinnar viku leitaði Leið ehf. til Örnefnastofnunar með fyrirspurn um sögu og merkingu örnefnisins Arnkötludalur og spurðist reyndar fyrir um örnefnið Gautsdalur um leið. Nefndin svaraði erindinu bæði fljótt og vel og fer það hér á eftir:

„Örnefnastofnun hefur verið beðin um að skýra nafnið Arnkötludalur og tilurð þess. Heimildir um jörðina Arnkötludal eru elstar frá 1317, í máldaga kirkjunnar í Tungu í Steingrímsfirði (Íslenskt fornbréfasafn II, bls. 408).

Ekki er vitað til að örnefnið Arnkatla sé til í landi jarðarinnar, en ætla má að kvenmannsnafnið Arnkatla sé liður í nafninu. Arnkötlustaðir eru til í Holtahreppi í Rangárvallasýslu, sem elsta heimild er til um frá 1270. Í örnefnaskrá þar er munnmælasaga um Arnkötlu landnámskonu, en engin slík saga er til um Arnkötludal. Þrjár Arnkötlur eru nefndar í Landnámabók en ekki tengdar við Arnkötlu-örnefni sem engin eru nefnd þar.

Kvenmannsnafnið Arnkatla er hliðstætt karlmannsnanfninu Arnkell (af Arn-ketill), sem dæmi er einnig um í Landnámu. Ástæðulaust er að skýra nafnið en það er samsett úr orðunum örn og ketill.

Gautsdalur hefur e.t.v. heitið Gautadalur fyrrum. Í einu handriti áðurnefnds máldaga Tungukirkju stendur „ad Gautadal". Gautsdalur er til í Húnaþingi og nefndur í Landnámabók, sagður numinn af Gauti nokkrum (Íslensk fornrit I, bls. 224 nm og 225). Gautsdalur er einnig bæjarnafn í Geiradalshreppi í A-Barð. Gautur var annars nafn á Óðni. Nafnið var fátítt hér á landi en algengt í Noregi. Gautsstaðir er bær á Svalbarðsströnd.

Mannsnafnið Gauti virðist ekki koma fyrir í Landnámabók en í fornsögum og fornbréfum (Nöfn Íslendinga, bls. 240-241). Gautastaðir eru tvennir til á landinu. Nafnið virðist þó hafa verið sjaldgæft á elstu tímum byggðar hér. Þórhallur Vilmundarson fjallar um nöfnin Gautavík og Gautsdalur í Grímni 1 (1980), bls. 84-86. Hann telur að Gautsdalur hafi heitið Götudalur.

Í máldaga Tröllatungu frá um 1274/1601 er skrifað „gautu dals land" (Íslenskt fornbréfasafn II:119) (leiðrétt frá prentaðri útgáfu þar sem stendur "gauta"). Ritháttur skjalsins að öðru leyti bendir þó til að nafnið hafi átt að vera skrifað Gautadalur. Líklegt er að mannsnafnið Gautur eða Gauti sé í fyrra lið þessa örnefnis."

Af undirbúningi að vinnu að lagningu Arnkötludalsvegar er það helst að frétta að nú eru væntanlega örfáir dagar í að fullbúin skýrsla um mat á umhverfisáhrifum vegarins verði tilbúin til sendingar til Skipulagsstofnunar, sem síðan auglýsir eftir athugasemdum allra þeirra sem þær vilja gera. Í framhaldinu verður farið að huga útboði á hönnun vegarins og verða forhönnun og verkhönnun væntanlega boðnar út í einu lagi og stefnt að því að hönnun verði lokið í haust.

Þó ber að hafa í huga að nú stendur fyrir dyrum að leggja fram tillögu að nýrri samgönguáætlun auk þess sem sala Símans hf er á næsta leyti. Aldrei er að vita hvað það kann að hafa í för með sér, segir á vef Leiðar ehf.