11/10/2024

Opinn fundur um rammaáætlun í Steinshúsi

KaldalónVerkefnisstjórn 2. áfanga rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði heldur opinn kynningarfund í Steinshúsi (félagsheimilinu) á Nauteyri við Ísafjarðardjúp kl. 14, í dag 31. mars. Á fundinum verða kynntar niðurstöður faghópa verkefnisstjórnar sem metið hafa svæði og virkjunarkosti, hver á sínu sérsviði. Í kjölfar kynninga verða umæður og fyrirspurnum svarað. Verkefnisstjórn hefur gefið út skýrslu með kynningu á þeim virkjunarkostum og svæðum sem til umfjöllunar eru ásamt lýsingu á starfi, aðferðafræði og niðurstöðum faghópanna sem metið hafa svæðin og virkjunarkosti, hver á sínu sérsviði. Skýrslan ásamt margs konar gögnum liggur frammi á vefsíðu rammaáætlunar – www.rammaaaetlun.is.  

Verkefnisstjórn 2. áfanga Rammaáætlunar hefur starfað frá haustinu 2007, en markmið rammaáætlunar er að skapa forsendur fyrir sátt um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Í áætluninni skal leggja mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt vatnsafls og háhita, og áhrif þeirra á náttúrufar og menningarminjar, meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina og meta áhrif á hagsmuni allra þeirra sem nýtt geta þessi sömu gæði.

Í ársbyrjun 2008 setti stjórnin á laggirnar fjóra faghópa til að meta mögulega virkjunarkosti og verðmæti þeirra svæða sem verða fyrir áhrifum af framkvæmdum. Faghóparnir hafa nú lokið störfum og verða niðurstöður þeirra lagðar fram í opnu kynningar- og umsagnarferli sem standa mun til 19. apríl.

Nú er leitað eftir athugasemdum og ábendingum um þessar niðurstöður faghópanna. Öllum er heimilt að senda inn umsögn um niðurstöður faghópanna, en tímafrestur til þess er til 19. apríl. Umsagnir skal senda inn í tölvupósti á netfangið umsogn@rammaaaetlun.is en einnig má senda skriflegar umsagnir á póstfangið: Rammaáætlun, c/o Orkugarður, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík. Fyrirspurnir má senda á sama netfang.

Að loknu umsóknarferlinu mun verkefnisstjórn nýta niðurstöður faghópanna og hafa umsagnir til hliðsjónar við að setja saman heildarniðurstöður áætlunarinnar og senda þær stjórnvöldum.

Frá þessu var greint á bb.is.