23/12/2024

Opið hús hjá Heilbrigðisstofnuninni

Á fimmtudaginn var opið hús hjá Heilbrigðisstofnun Hólmavíkur og var byggingin sýnd og tæki þau sem hafa borist stofnuninni að gjöf. Jóhann Björn Arngrímsson veitti viðurkenningarskjöl  og þakkir fyrir þessar veglegu gjafir. Á meðal þeirra var göngubretti og þjálfunartæki með fylgihlutum til líkamsræktar sem var gefið af Kvenfélaginu Glæðum á Hólmavík og styrktarsjóði Sigríðar Guðbjörnsdóttur sem hún gaf til minningar um foreldra sína Guðbjörn Bjarnason og Katrínu Guðbjörnsdóttur frá Hólmavík. Verkalýðsfélag Vestfjarða gaf forláta þrekhjól til líkamsræktar ásamt fylgihlutum. Lionsklúbburinn á Hólmavík gaf kvenskoðunarbekk.

Kvenfélagskonur í kvenfélaginu Björk í Tungusveit gáfu hornsóffa og tvo hægindastóla ásamt fótaskemlum til að hafa á sjúkrastofum. Þjónustuhópur aldraðra hjá Héraðsnefnd Strandasýslu gaf þrjá bókaskápa sem eru í setustofu og sóma sér þar vel. Herselía Þórðardóttir og Einar Magnússon frá Hvítarhlíð gáfu hnífaparasett. Fólk fjölmennti á opna húsið til að skoða bygginguna og munina og voru á boðstólum hinar veglegustu veitingar.

Þá skal þess getið að Valgeir Benediktsson í Árnesi hefur teiknað táknmynd eða lógó fyrir Heilbrigðisstofnunina, kross með Strandamerkinu Ægishjálmi innan í.

Jóhann Björn Arngrímsson þakkar fyrir gjafirnar – ljósm. Ásdís Jónsdóttir