30/10/2024

Önnur umferð tippleiksins

Nú hafa tippspekingarnir Þröstur Áskelsson og Jón Jónsson skilað af sér spá um úrslit á getraunaseðli þessarar viku, en hann samanstendur af landsleikjum. Síðasta laugardag gerðu kapparnir jafntefli, 6-6, sem var kannski ekki svo óvænt í ljósi þess að þeir voru ósammála um aðeins fjögur tákn á seðlinum. Þeir halda áfram að vera samstíga þessa viku; þeir eru sammála um átta tákn en ósammála um fimm. Það vakti sérstaka athygli stjórnanda leiksins að þeir eru einnig sammála um hvor þeirra á meiri möguleika á sigri þessa vikuna. Hér er hægt að kíkja á spár Jóns og Þrastar fyrir leiki laugardagsins:


1. Svíþjóð – Búlgaría

Þröstur: Svíar einfaldlega með miklu betra lið en Búlgarar. Stoitchkov fer því tómhentur heim. Tákn: 1.

Jón
: Svíar eru erfiðir heim að sækja og taka þetta létt. Ljungberg skorar þrennu ef hann er ekki fótfúinn og með flensu. Tákn: 1.

+++

2. Wales – England

Þröstur: Ef það er einhver þjóð sem Walesverjar vilja vinna fram yfir aðrar eru það Englendingar, en það tekst ekki í þetta skipti. Erikson búinn að losa sig við James úr markinu og styrkir það Englendinga. Tákn: 2.

Jón: England hlýtur að hafa betur í þessari viðureign. Annað væri stórslys eftir útreiðina sem þeir fengu á móti Dönum í vináttuleiknum um daginn. Tákn: 2.

+++

3. Tyrkland – Danmörk

Þröstur: Kolbrjálaðir Tyrkir gegn litlu Danmörk. Baunar eiga ekki séns. Tákn: 1.

Jón: Spái því að Tyrkir skjóti Danskinum skelk í bringu og skjóti þá ofan úr skýjunum þar sem þeir hafa dvalið eftir sigurinn á Englendingum um daginn. Það kann ekki góðri lukku að stýra að ganga óguðlega vel í vináttuleikjum. Tákn: 1.

+++

4. Ísland – Króatía

Þröstur: ÁFRAM ÍSLAND!!!!!! Tákn: 2.

Jón: Held að Íslendingar eigi engan séns í þessum leik, það eru ákveðnir veikleikar í vörninni og í föstum leikatriðum. Óraunhæfar kröfur um sigur fara ekki vel í liðið, 0-3 spái ég. Tákn: 2.

+++

5. Skotland – Ítalía

Þröstur: Spaghettíæturnar verða ekki í vandræðum með Skotana. Tákn: 2.
Jón: Ítalir ættu að vinna þetta þó Skotar geti verið skeinuhættir á heimavelli. Það gerist samt ekki oft á sömu öldinni. Tákn: 2.

+++

6. Rúmenía – Tékkland

Þröstur: Milan Baros gengur frá Rúmenum, skorar 1-2 mörk, og verður maður leiksins. Mikið hefði nú verið gaman hefði hann spilað eins með Liverpool eins og hann gerir með landsliðinu, bölv. fíflið! Tákn: 2.

Jón: Þarna held ég að heimavöllurinn hafi áhrif þannig að Rúmenía nái óvæntu jafntefli á móti firnasterkum Tékkum. Tákn: X.

+++

7. Slóvenía – Noregur

Þröstur: Heyja Norge! Nei… Slóvenar verða ekki í vandræðum með að finna smugur á norsku vörninni. Tákn: 1.

Jón: Þetta er nú frekar jafnteflislegt, eða kannski heimasigur, æææ, Norðmenn ættu að hanga á því. Tákn: X.

+++

8. Sviss – Ísrael

Þröstur: Svisslendingar ná að landa sigri eftir mikin barning. Ísraelar hafa oft náð góðum, óvæntum úrslitum á útivelli, en ekki núna. Tákn: 1.

Jón: Sviss er sterkara liðið, ætti að vinna á heimavelli. Tákn: 1.

+++

9. Pólland – Austurríki

Þröstur: Austurríkismenn geta staðið í þeim bestu, en þeir geta líka tapað gegn liðum eins og Færeyjum. Pólverjar eiga rólegan dag, og taka þetta létt. Tákn: 1.
Jón: Skelfilega erfiður leikur, Pólland ætti að vinna, en Austurríki gæti komið á óvart, tja, ja, sko, já. Jafntefli. Tákn: X.

+++

10. Bosnía/Herzegovina – Belgía

Þröstur: Hvorugt lið má við að tapa þessum leik, því fer sem fer. Tákn: X.

Jón: Þetta er nokkuð strembinn leikur að spá fyrir um. Jafntefli skal það vera. Belgar eru allir að koma til. Tákn: X.

+++

11. Eistland – Lettland

Þröstur: Nágrannaslagur. Steindautt jafntefli. Tákn: X.

Jón: Eistar ættu að vinna nágranna sína á heimavelli. Það er hunderfitt að spá á þessum morrans landsleikjaseðli, fuss bara. Tákn: 1.

+++

12. Serbía/Svartfjallaland – Litháen

Þröstur: Serbar rúlla yfir Litháa, svo einfalt er það. Tákn: 1.
Jón: Serbía hlýtur að vinna þennan leik, annað væri ótrúlegt. Tákn: 1.

+++

13. Moldavía – Hvíta-Rússland

Þröstur: Hvít Rússar eiga að heita sterkari aðilinn hér. Moldóvar ná þó að kreista út jafntefli. Tákn: X.

Jón: Hvíta-Rússland er sterkara á pappírunum, en auðvitað getur heimavöllurinn sett strik í reikninginn og rústað spánni. Tákn: 2.

+++

Þröstur: Jæja, nú tek ég þetta! Mörk í uppbótartíma munu ekki bjarga Jóni í þetta skiptið. Liverpoolkveðja, Þröstur. You’ll never walk alone.

Jón: Þetta er erfiður seðill og ég er vondaufur um að vinna Þröst í tippkeppni þar sem landsleikir eru á seðlinum. Held að hann taki mig á leikjum nr. 6-10.