Tvær hrefnur hafa verið drepnar á Steingrímsfirði í dag. Fyrri hrefnan var skotin um klukkan tíu í morgun rétt utan við Hólmavík og klukkan fjögur í dag hæfði skytta hvalveiðiskipsins Dröfn RE-35 aðra hrefnu. Þá var skipið statt utarlega í firðinum, nokkuð út af Reykjanesi. Það er önnur hrefnan sem vísindamenn hjá Hafró taka til greiningar á þessari vertíð. Að sögn Gunnars Jóhannssonar skipstjóra Drafnar verður aflinn fluttur til Reykjavíkur og seldur á markaði þar. Hann gerir ráð fyrir því að skipið verði áfram við veiðar í og við Húnaflóa á næstunni. Báðar skepnurnar sem drepnar voru í dag voru yfir sjö metra langar.
Skipið er ennþá að veiðum og skipverjar skima eftir bráð rétt utan við Hólmavík þessa stundina, en rjómablíða er á Steingrímsfirði. Sjávarútvegsráðherra gaf út leyfi til að skjóta 39 hrefnur og stefnt er að því að skjóta fimm dýr í apríl. Dröfn RE-35 er eina skipið sem hefur verið að veiðum í mánuðinum.
Dröfn RE á hrefnuveiðum á Steingrímsfirði í dag