21/11/2024

Ólympíuleikar á Galdraloftinu þann 1. júlí


Annað kvöld þann 1. júlí kl. 20:30 munu þrír trúbadorar troða upp á Galdraloftinu á Hólmavík. Tónlistarmennirnir eru Svavar Knútur, Owls of the Swamp frá Ástralíu og Samantha Burke sem er einnig frá Ástralíu. Aðgangseyrir er aðeins kr. 1000. Þau komu við á Hólmavík í gær á leið sinni til Djúpavíkur þar sem þau komu fram í gærkvöldi. Kvikmyndatökumaður strandir.saudfjarsetur.is náði þeim í viðtal á Galdraloftinu og fékk þau til að flytja eitt lag til að hita upp fyrir kvöldið. Ferðalagið er hluti af svokölluðu alþjóðlegu samsæri trúbadora og kallast Ólympíuleikar trúbadora.

Owls of the Swamp
Peter Ühlenbruch, betur þekktur í heimalandi sínu sem Owls of the swamp, er þýskættaður ástrali, búsettur í Melbourne. Hann gaf á síðasta ári út hljómplötuna Smoky Bay, sem fjallar um dvöl hans á Íslandi og upplifun hans af löngum björtum nóttum með tilheyrandi rómantík og ástarbrima og vaxandi skammdegi með tilheyrandi þjökun hugans. Þá má þar heyra lýsingu hans á Gullfossi og skelfilegri bílferð yfir Holtavörðuheiði í snjóbyl. Platan fékk mjög góðar viðtökur í Ástralíu og góða dóma í tónlistartímaritum þarlendis. Peter er mikill Íslandsvinur og finnst fátt skemmtilegra en að heimsækja landið. Í fyrstu heimsókn sinni til Íslands hitti hann Svavar Knút, íslenskan trúbador og tókst með þeim mikil vinátta, sem leiddi til þess samstarfs sem seinna varð nefnt The International Troubadour Conspiracy eða hið alþjóðlega trúbadorasamsæri. Pete skipulagði m.a. tónleikaferðalag Svavars Knúts til Ástralíu síðasta sumar.

Sam Burke
Sam Burke er áströlsk trúbatrix sem gaf út sína fyrstu hljómplötu „Sam Burke and the Wifeys“ í apríl í fyrra. Platan var hljómplata vikunnar á stöðinni PBS FM í Melbourne þegar hún kom út og hefur hlotið mikla spilun í ástralska ríkisútvarpinu og mörgum smærri útvarpsstöðvum. Sam hefur verið að hasla sér völl sem ein af rísandi stjörnum í þjóðlagatónlistargeiranum í Ástralíu og fer reglulega í tónleikaferðalög bæði þar í landi sem og á Nýja Sjálandi. Ferð hennar um Ísland er hluti af ferðalagi hennar um Evrópu, Kanada og Bandaríkin.

Svavar Knútur
Svavar Knútur trúbador er skipuleggjandi Ólympíuleika trúbadora og Melodica festivalsins á Íslandi. Hann var sigurvegari trúbadorakeppni Rásar 2 árið 2005 og er einnig forsöngvari hljómsveitarinnar Hrauns. Hraun hefur nú gefið út tvær hljómplötur, I can’t believe it’s not happiness og Silent Treatment, þar sem genginn er hlykkjóttur vegurinn frá eymd til endurlausnar. Svavar Knútur hefur leikið á tónleikum, bæði einn og með hljómsveit sinni víða um land, enda er hann ættaður af öllum helstu landshornum.