02/11/2024

Ókeypis námskeið hjá Fræðslumiðstöðinni

Til að bregðast við ríkjandi efnahagsástandi hafa Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Jón Páll Hreinsson framkvæmdastjóri Markaðsstofu Vestfjarða ákveðið að bjóða ókeypis námskeið um styrkumsóknir. Jón Páll mun kenna á námskeiðinu sem verður haldið í næstu viku, síðustu vikuna í október. Verður kennt mánudag, miðvikudag og föstudag. Kennt verður gegnum fjarfundabúnað frá Ísafirði í Grunnskólann á Hólmavík.

Markmið námskeiðsins er að gera þátttakendur hæfari í að skrifa styrkumsóknir og auka þekkingu þeirra á þeim sjóðum sem hægt er að sækja styrki til. Farið verður í gegnum hvernig á að skrifa umsóknir og hvað einkennir góðar styrkumsóknir. Gerð er grein fyrir hvernig umsóknir eru metnar í meginþáttum af þeim sem lesa, meta og ákvarða hverjir hljóta styrki. Umsóknarferlinu og umsóknarvinnunni má skipta niður í hluta og verður fjallað um hvernig ná má sem bestum árangri í hverjum hluta.

Þá verður fjallað um helstu sjóði sem í boði eru á Íslandi og erlendis (norrænir og evrópuverkefni) og mismunandi áherslur milli þeirra. Loks verður umfjöllun um áfangaskýrslur og lokaskýrslur.