22/11/2024

Óhöpp í umferðinni

Í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum kemur fram að í síðustu viku voru 7 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur á Vestfjörðum. Sá sem hraðast ók var stöðvaður á Djúpvegi og mældist á 130 km hraða. Einn ökumaðurinn, sem var stöðvaður á Patreksfirði, er einnig grunaður um ölvun við akstur.
Fimm umferðaróhöpp voru tilkynnt og voru slys á fólki í fjórum þeirra. Aðfaranótt fimmtudagsins slasaðist ökumaður bifreiðar sem lenti í árekstri við aðra bifreið á einbreiðri brú yfir Botnsá í Mjóafirði við Ísafjarðardjúp. Viðkomandi var fluttur með sjúkrabifreið til ísafjarðar. Önnur bifreiðin var mikið skemmd og var flutt af vettvangi með kranabifreið. 

Þessi einbreiða brú yfir Botnsá mun ásamt fimm öðrum einbreiðum brúm eða ræsum færast út fyrir aðalveginn milli Ísafjarðar og Hólmavíkur þegar nýr vegur um Mjóafjarðarbrú verður opnaður í haust.

Þá segir í tilkynningu lögreglunnar frá því að ökumaður bifhjóls féll í götuna á Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði um miðjan dag á þriðjudaginn og var fluttur á sjúkrahús með minniháttar áverka. Á miðvikudagskvöldið var tilkynnt um bílveltu á Sandvegi í Bolungarvík. Þar hafði ökumaður misst stjórn á bifreið er hann sveigði frá fugli sem var á veginum. Bifreiðin var gjörónýt eftir óhappið og þrír aðilar voru fluttir með sjúkrabifreið á sjúkrahús með minniháttar áverka.

Þá varð alvarlegt slys á Túngötu á Ísafirði á fimmtudagskvöldið, en þar var ekið á barn á reiðhjóli. Barnið beinbrotnaði og hlaut aðra áverka og var flutt á slysadeild á Ísafirði og síðan með sjúkraflugvél til Reykjavíkur. Þessu til viðbótar var minniháttar umferðaróhapp í Vestfjarðagöngum á laugardag þar sem tvær bifreiðar rákust saman.