22/12/2024

Oddvitinn álítur ekki skilyrði fyrir hendi

Í Svæðisútvarpi Vestfjarða í gær kom fram að Jenný Jensdóttir oddviti hreppsnefndar Kaldrananeshrepps álítur að ekki séu skilyrði fyrir hendi til sameiningar Kaldrananeshrepps við þrjú önnur sveitarfélög á Ströndum, sem eru Árneshreppur, Hólmavíkurhreppur og Broddaneshreppur. Hún tekur til samgöngur og víðlent hérað sem bæði sé dýrt í rekstri og óhagkvæmt. 


Kynningarfundir verða haldnir um sameiningarmál á Ströndum fyrir sameiningarkosningarnar 8. október, en eins og nýlega kom fram hér á fréttavefnum þá eiga Strandamenn von á kynningarbæklingi um áhrif sameiningarinnar á samfélagið nú í þessari viku.