05/05/2024

Nýtt og kraftmikið fólk í framlínuna

Grein eftir Jón Jónsson
Í sveitarstjórnarkosningum sem framundan eru velja íbúar um land allt sér fólk til að stýra málefnum sveitarfélagsins sem það býr í. Þeir sem kosnir eru til slíkra ábyrgðarstarfa, vinna síðan að hagsmunamálum íbúanna og sjá um að forgangsraða framkvæmdum og fjármunum næstu fjögur ár. Því er mikilvægt að í sveitarstjórn veljist hugmyndaríkir og kraftmiklir einstaklingar sem hafa mikið til málanna að leggja, en gæti þess um leið að hafa gott samráð við íbúa og atvinnulíf. Það er líka mikilvægt að fagmennska sé í heiðri höfð og vinnubrögð séu vönduð. Fólkið sem kosið er þarf að sýna aðgætni í fjármálum og ábyrgð við að bæta lífsgæði íbúanna.

Vönduð vinnubrögð eru keppikefli V-listans

V-listinn í Strandabyggð er skipaður fólki sem mun leggja sig allt fram um að vanda til verka. Leiðarljós okkar verður að skoða mál gaumgæfilega áður en ákvarðanir eru teknar, hafa samráð við íbúa og hagsmunaaðila, fá sérfræðiálit þar sem þurfa þykir og byggja á vandaðri gunnvinnu. Það er í mörg horn að líta í sveitarfélaginu, fjölbreytni mannlífs og atvinnulífsins er þess helsti styrkleiki. Við hlökkum til að takast á við þessi ólíku verkefni.

Valkostirnir í sveitarstjórnakosningum í Strandabyggð eru býsna skýrir að þessu sinni. Tveir listar eru í boði. Annar þeirra hefur haft meirihluta í sveitarstjórn Strandabyggðar síðustu fjögur ár og stýrt sveitarfélaginu. Hann er lítið breyttur, tveir einstaklingar koma nýir inn á listann en átta eru þar áfram frá kosningunum fyrir fjórum árum. V-listinn býður hins vegar upp á nýtt fólk sem ekki hefur setið í sveitarstjórn áður. Fólk sem er þrátt fyrir það þaulvant störfum að félagsmálum og með ótrúlega mikla og fjölbreytta reynslu af hugmyndavinnu og verkefnastjórn.

V-listann skipar fólk sem vill sjá breytingar til hins betra í sveitarfélaginu, þar á meðal margar minniháttar breytingar á stjórnsýslu, upplýsingaflæði og vinnubrögðum í sveitarstjórn. Breytingar sem gera kannski ekki stóran skurk hver og ein, en samanlagðar gefa þær Strandabyggð aukinn slagkraft og skapa margvísleg sóknarfæri.

Öflugt fólk með nýjar áherslur

Í framlínunni í framboði V-listans, baráttusætunum þremur sem tryggja meirihluta í sveitarstjórn, eru ólíkir einstaklingar. Það nýja fólk sem íbúum Strandabyggðar stendur til boða að velja til að stýra sveitarfélaginu er undirritaður, Jón Jónsson á Kirkjubóli, sem skipar efsta sætið og er oddvitaefni listans ef meirihluti næst. Í öðru sæti er Katla Kjartansdóttir þjóðfræðingur og verkefnastjóri á Þjóðfræðistofu á Hólmavík. Þriðja sætið og baráttusætið í þessum kosningum skipar síðan bóndi og tónlistarmaður á Miðhúsum í Kollafirði, Viðar Guðmundsson, ungur að árum en gömul sál. Þessir þrír frambjóðendur munu á næstu dögum kynna sig, hugðarefni sín og bakgrunn, í sérstökum kynningargreinum.

V-listinn vill auglýsa starf sveitarstjóra

V-listinn vill að staða sveitarstjóra í Strandabyggð verði auglýst laus til umsóknar. Ef af því verður, vonumst við til að fjölmargar áhugaverðar umsóknir berist og úr hópi umsækjenda verði hægt að ráða kraftmikinn einstakling sem er tilbúinn til að berjast af alefli fyrir hagsmunum svæðisins og vera öflugur talsmaður þess út á við. Við höfum einsett okkur að nýr sveitarstjóri fái skýra skriflega starfslýsingu sem kveður á um hlutverk hans og markmiðin með starfi hans hjá sveitarfélaginu.

V-listinn hefur engan ákveðinn einstakling í huga til að sinna starfi sveitarstjóra næsta kjörtímabil. Enginn á listanum sjálfum hefur sýnt þeirri stöðu áhuga og ekki heldur makar frambjóðenda, börn þeirra eða foreldrar.

Jón Jónsson á Kirkjubóli,
skipar 1. sæti á V-listanum í Strandabyggð