21/11/2024

Nýtt hús fyrir Fiskmarkað á Hólmavík

Byrjað er að byggja nýtt húsnæði á Hólmavík fyrir Fiskmarkaðinn á staðnum og verður húsið staðsett á uppfyllingu rétt við bryggjuna, neðan við Vélsmiðjuna Vík. Búið er að fylla upp og koma upp grjótvarnagarði og steypa sökkla.Yfirsmiður við verkið er Ómar Pálsson á Hólmavík. Húsið er stálgrindarhús, 280 fermetrar. Stefnt er að því að taka húsið í notkun næsta vor, en það verður einnig nýtt fyrir verkun grásleppuhrogna. Útgerðarfyrirtæki á Hólmavík, sveitarfélagið Strandabyggð, Kaupfélag Steingrímsfjarðar og Fiskmarkaður Suðurnesja eiga stærstu hlutina í Fiskmarkaðnum Hólmavík. Við fiskmarkaðinn starfar einn starfsmaður á ársgrundvelli auk vinnu við bókhald og slíkt.


Stefnt er að því að setja gamla húsið á sölu þegar fyrir liggur hvenær hægt verður taka nýja húsnæðið í notkun.