22/12/2024

Nýjar íbúatölur

Nú hefur Hagstofa Íslands birt nýjar tölur um mannfjölda í landinu miðað við 1. júlí, svokallaðan miðársmannfjölda. Nokkrar breytingar hafa orðið á Ströndum og því miður er um fækkun að ræða eins og oft áður og hún er umtalsverð á milli ára. Þann 1. júlí 2005 voru íbúar á Ströndum samtals 796 en hefur nú fækkað um 30 milli ára og eru 766. Þar af búa 499 í Strandabyggð, 110 í Kaldrananeshreppi, 107 í Bæjarhreppi og 50 í Árneshreppi.

Einu ári fyrr, 1. júlí 2005, voru íbúar á Ströndum samtals 796, þar af bjuggu 509 í núverandi Strandabyggð, 122 í Kaldrananeshreppi, 112 í Bæjarhreppi og 53 í Árneshreppi.

Sex mánuðum seinna, eða þann 31. desember 2005 samtals voru Strandamenn hins vegar 766 eða jafn margir og nú þó skiptingin milli hreppa væri örlítið frábrugðin því sem nú er. Þar af bjuggu 499 í núverandi Strandabyggð, 112 í Kaldrananeshreppi, 105 í Bæjarhreppi og 50 í Árneshreppi. Hefur íbúunum því nú ekki fækkað síðustu sex mánuði. Óvíst er hvort þessi sveifla sé að einhverju leyti árstíðabundin og íbúar á Ströndum séu að jafnaði fleiri um mitt sumar en áramótin á eftir, en 31. desember 2004 voru íbúarnir samtals 795.

Fréttavefurinn strandir.saudfjarsetur.is hvetur sveitarstjórnarmenn og aðra sem standa í broddi fylkingar við atvinnu- og byggðamál á Ströndum til að lesa þessa frétt aftur og spekúlera í hvað hægt sé til bragðs að taka til að snúa vörn í sókn. Oft var þörf en nú er nauðsyn og Strandamenn verða sjálfir að hafa fyrir hlutunum. Í ljósi reynslunnar er ólíklegt að stjórnvöld á landsvísu geri mikið til að hafa jákvæð áhrif á þessa þróun á svæðinu.