22/12/2024

Nýir starfsmenn Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða

Á ÍsafirðiÍ byrjun október voru auglýst tvö störf hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða á skrifstofu félagsins á Ísafirði. Annars vegar var þar um að ræða starf verkefnisstjóra Vaxtarsamnings Vestfjarða og hins vegar staða sérfræðings á atvinnuþróunarsviði með áherslu á ferðamál, markaðsmál og menningu. Sá starfsmaður á einnig að stýra ferðaþjónustu- og menningarklasa hjá Vaxtarsamningi Vestafjarða. Ákveðið hefur verið að ráða Neil Shiran Þórisson á Ísafirði í stöðu verkefnisstjóra Vaxtarsamnings, en Shiran hefur áður starfað hjá félaginu. Þá er Ásgerður Þorleifsdóttir í Reykjavík ráðin í stöðu sérfræðings.

Shiran mun hefja störf nú byrjun nóvembermánaðar en Ásgerður væntanlega í byrjun desember næstkomandi. Í fréttatilkynningu frá Atvinnuþróunarfélaginu býður félagið þau velkomin til starfa og væntir mikils af þeirra framlagi. Fréttavefurinn strandir.saudfjarsetur.is tekur heilshugar undir þær heillaóskir og væntingar.