22/12/2024

Ný skýrsla um raforkuöryggi á Vestfjörðum

Orkubú rafmagn

Í nýrri skýrslu um raforkuöryggi á Vestfjörðum er m.a. fjallað um það sem hefur áunnist við að styrkja raforkukerfið á Vestfjarðakjálkanum síðustu ár. Af framkvæmdum á Ströndum má nefna að 2014 var t.d. unnið að lagningu strengs á Trékyllisheiði, þegar lagður var nýr þriggja fasa jarðstrengur milli Djúpavíkur og Goðdalsár og eru frekari framkvæmdir við að styrkja línuna í Árneshrepp og koma henni í jörð framundan. Við þessar framkvæmdir síðasta sumar var lagt ídráttarrör fyrir fjarskiptastreng samhliða rafstrengnum og hefur Orkubú Vestfjarða tekið þá stefnu að það verði meginregla alls staðar þar sem jarðstrengur fer í jörðu hér eftir. Einnig kemur fram að Orkubúið sé nú að skoða möguleika varðandi framkvæmdir í sveitunum sunnan Hólmavíkur, þ.e. hvort ávinningur geti orðið af sameiginlegri plægingu þriggja fasa jarðstrengs þar sem hann vantar, ásamt ljósleiðara, allt frá botni Hrútafjarðar til Súðavíkur í Ísafjarðardjúpi. Þessi skoðun er á frumstigi, segir í skýrslunni.

Staðan í sveitunum sunnan Hólmavíkur er nú sú að þriggja fasa jarðstrengur nær frá Þverárvirkjun að Þorpum yst við Steingrímsfjörð sunnanverðan. Þaðan er einfasa raflína um Kollafjörð, yfir Ennisháls og að Þambárvöllum í Bitrufirði. Þar endar línan, en önnur einfasa lína liggur svo út Hrútafjörðinn vestanverðan að Skálholtsvík. Ávinningur væri af því að tengja kerfið saman með lagningu strengs um Stikuháls og að skipta einfasa línum út fyrir þriggja fasa streng.

Einnig er mikilvægt að þrífösun í Djúpi nái að Sængurfossvirkjun í Mjóafirði og hækka þarf spennu yfir Steingrímsfjarðarheiði í 19 kV frá Hólmavík að Nauteyri, segir í skýrslunni, sem nálgast má hér undir þessum tengli.

Þar segir ennfremur: „Aðstæður á Vestfjörðum eru víða þannig að takmarkað undirlendi er oft fyrir ýmis konar mannvirki, akvegi eða háspennulínur og jarðstrengi. Brýnt er að veitufyrirtæki og vegagerð auki samstarf sín á milli svo tryggt verði að framkvæmdir eins rýri ekki möguleika hins. Of lítil samvinna hefur verið milli veitufyrirtækja og Vegagerðar, sem þó í dag lúta oft sama eigendavaldi. Það er nauðsynlegt að horfa til þess, að í framtíðinni verði litið á vegagerð, rafmagn og fjarskipti sem grunnþjónustu sem beri að tvinna saman strax við frumhönnun hvort sem um er að ræða veg, lagningu háspennustrengs eða fjarskiptalögn.“