Aðsend grein: Anna Kristín Gunnarsdóttir
Þrjú svæði á landinu skera sig úr heildinni hvað varðar öryggi í samgöngum. Þessi þrjú svæði eru Vestfirðir, Austfirðir og höfuðborgarsvæðið. Á Austfjörðum og Vestfjörðum skapar landslag og lega byggðar erfiðleika og hættur í umferðinni sem ekki er hægt að leysa til frambúðar nema með kostnaðarsömum framkvæmdum en á höfuðborgarsvæðinu stafa erfiðleikar fyrst og fremst af því að framkvæmdir í vegamálum hafa ekki haldið í við mikla fólksfjölgun undanfarinna ára. Þar er einnig þörf á fjárfrekum aðgerðum en nauðsynlegum til að tryggja öryggi og greiðar samgöngur til og frá borginni. Við endurskoðun vegaáætlunar sem nú er hafin gefst kostur á að horfa á landið frá nýju sjónarhorni, sjónarhorni þess sem er þingmaður alls landsins.
Austfirðir eitt atvinnusvæði
Það er skoðun mín að setja eigi tímamörk um hvenær við ætlum að vera búin að koma vegum á Vestfjörðum niður á láglendi, hvenær við ætlum að vera búin að ljúka tengingu fjarðanna á Austfjörðum og hvenær við ætlum að vera búin að tryggja eðlilegar samgöngur við höfuðborg landsins jafnframt því sem fjármagn til verksins verði tryggt.
Slæmar samgönguleiðir hafa áhrif á lífskjör almennings, á þróun atvinnulífs og þróun byggðar. Austfirðingar munu ekki til fulls njóta uppbyggingar atvinnnulífs á svæðinu fyrr en búið er að tryggja öruggar samgöngur milli fjarðanna og uppá Hérað. Einangrun Fjórðungssjúkrahússins og framhaldsskólans í Neskaupsstað við núverandi aðstæður er óheppileg. Gera þarf svæðið að einu atvinnu- og þjónustusvæði og það er vel gerlegt með betri vegatengingum. Jarðgöng eru dýr en þau eru fjárfesting sem borgar sig til langs tíma litið. Þannig eigum við að hugsa í samgöngumálum.
Forneskjan í vegamálum Vestfjarða
Á Vestfjörðum hafa íbúar búið við ótrúlegt metnaðarleysi og skeytingarleysi stjórnvalda. Allir Suðurfirðir Vestfjarða mega búa við einangrun og stórhættulega fjallvegi um leið og veður versnar, þangað er ekki fært nema um langa og mjóa malarvegakafla. Bílstjórar flutningabíla þurfa jafnvel að keðja bílana sína þegar farið er um suma hálsana í rigningu, hvað þá heldur snjó. Íbúar hafa árum saman farið fram á að sett verði upp vegrið á hættulegum köflum en talað fyrir daufum eyrum.
Á norðursvæði Vestfjarða eru tvö hættuleg flóðasvæði sem fólk þarf að fara um daglega. Nemendur sækja skóla og fullorðið fólk atvinnu og þjónustu frá Bolungarvík til Ísafjarðar. Þar er heil fjallshlíð smám saman að hrynja í sjó fram en kemur líklega í heilu lagi innan tíðar. Á leiðinni Ísafjörður – Súðavík er mikil snjóflóðahætta og verður ekki komið varanlega í veg fyrir hættu af þess völdum nema með jarðgöngum. Þau eru ekki á áætlun. Vegurinn inn djúp skánar smám samar en enn eru malarkaflar á leiðinni og framkvæmdur sem lengi hefur verið beðið eftir var frestað nýlega vegna þenslu í samfélaginu. Þar fengu Vestfirðingar að gjalda fyrir þensluna á höfuðborgarsvæðinu og Austurlandi. Réttlátt, ekki satt?
Ekki er hægt að tala um tengingu suður- og norður Vestfjarða þar sem gamlir og háir fjallvegir verða ófærir í fyrstu vetrarveðrum. Og vetur á Íslandi eru að jafnaði um 8 mánuði ársins. Þar verður ekki ráðin bót á nema með jarðgöngum.
Á Ströndum er vegakerfið forneskja. 13 einbreiðar brýr frá Brú til Hólmavíkur, hættulegir hálsar sem valda slysum og óhöppum árlega og vegurinn löngu sligaður vegna þungaflutninga. Vegur um Arnkötludal mun létta mikilli umferð af leiðinni en þeirri framkvæmd hefur líka verið slegið á frest vegna þenslu í öðrum landshlutum.
Landsvæðið býr við langtum verri og hættulegri vegi en nokkurt annað svæði landsins og því er fullkomlega sanngjarnt og eðlilegt að verja miklu meira fjármagni til framkvæmda þar en gert hefur verið áður.
Höfuðborgarsvæðið líka!
Á höfuðborgarsvæðinu búa rúmlega 63% landsmanna og er Ísland eitt af þeim 6 löndum sem búa við svo mikið ójafnvægi í byggð, af 162 löndum (Heim. Ágúst Einarsson).
Sú þróun, sem stjórnvöld hafa stuðlað að með máttleysi sínu í stjórn landsins, krefst að sjálfsögðu aðgerða í samgöngum við borgina. Sundabrautin, tvöfaldun vesturleiðarinnar að Borgarnesi og leiðanna austur fyrir fjall og á Suðurnes. Þetta eru brýnustu hagsmunamál landsmanna allra í samgöngumálum. Þetta kostar mikið en sparar jafnframt til lengri tíma litið, sparar í ferðatíma og eykur öryggi vegfarenda.
Vinna við endurskoðun gildandi samgönguáætlunar er hafin hjá Vegagerð ríkisins. Nú er tækifæri til að líta á hlutina frá nýju sjónarhorni, sjónarhorni þess sem er þingmaður alls landsins en ekki aðeins afmarkaðs svæðis. Þessa sanngjörnu nálgun ættu allir að geta sameinast um svo framarlega sem eðlilegu viðhaldi og endurbótum verði jafnframt sinnt.
Anna Kristín Gunnarsdóttir,
þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi
www.althingi.is/akg