14/12/2024

Ný götunöfn á Hólmavík – Jakobínutún og Skjaldbökuslóð

Á hátíðarfundi sveitarstjórnar Strandabyggðar í tilefni af Hamingjudögum voru samþykkt tvö ný götuheiti á Hólmavík. Annars vegar er nýtt nafn á götunni sem félagsheimilið, íþróttamiðstöðin og tjaldstæðið standa við en hér hér eftir heitir hún Jakobínutún. Þetta götuheiti er til heiðurs Jakobínu Thorarensen sem lengi bjó á Hólmavík, litrík kona og sköruleg. Hún og fyrri maður hennar létu reisa Steinhúsið fyrir sléttum 100 árum og var það fyrsta steinsteypta húsið á Hólmavík. Þar rak Jakobína verslun áratugum saman, allt til 1962. Þar sem félagsheimilið stendur var áður Jakobínugirðing og Jakobínutún sem kennt var við hana, en landið var gefið undir félagsheimili 1984.

Í öðru lagi snýst tillagan um breytt nafn á götunni sem liggur með sjávarsíðunni, á uppfyllingunni milli smábátabryggju og hafskipabryggju. Þessi gata heitir nú Skjaldbökuslóð. Nafnið er til minningar um þann einstaka atburð þegar Einar Hansen og Sigurður sonur hans drógu suðræna risaskjaldböku að landi á Hólmavík, þarna í fjörunni, haustið 1963. Jafnframt er götunafnið Skjaldbökuslóð valið til heiðurs Einari Hansen sjálfum og til að minna á margvísleg afrek hans og magnaðar sögur af þeim.