23/12/2024

Ný galdrabolatíska hjá Galdrasýningunni

Nýjir galdrabolir munu líta dagsins ljós í verslunum Galdrasýningar á Ströndum á Hólmavík og á Klúku á næstunni. Nýju bolirnir verða annarsvegar með afar fallegum galdrastaf sem er til að heilla hinn aðilann upp úr skónum og hin tegundin með mynd af galdrastafnum Ægishjálmi eins og hann kemur fyrir í galdraskræðu frá um 1670 ásamt meðfylgjandi texta. Bolirnir verða úr vönduðu efni og fást í tveimur sniðum, sérstöku kvensniði og venjulegu T-shirt sniði. Einnig verður áfram verslað með gömlu góðu, og svörtu Ægishjálmsbolina en þeir verða þó lítið eitt breyttir.

Mikið hefur verið spurt eftir öðrum sniðum á galdraboli Galdrasýningar á Ströndum og öll hönnunin tekur mið af nýjustu tísku. Öllum bolum fylgir útskýring á tákninu á sérprentuðum miðum í hálsmálinu á íslensku og ensku og þeir eru framleiddir hjá BROS. Bolina verður að sjálfsögðu einnig hægt að nálgast í sölubúð Galdrasýningar á Ströndum á netinu, Strandabúðinni. Meðfylgjandi mynd er af módelum við Galdrasafnið á Hólmavík.

center