30/10/2024

Nú vantar bara línumenn

Í fréttatilkynningu Símans í morgun kemur fram að Hólmvíkingar geti fengið aðgang að ADSL kerfi Símans og hægt sé að panta þjónustuna þar. Það segir ekki alla söguna, en eins og kom fram í fréttapistli á strandir.saudfjarsetur.is þá eru engir ADSL beinar (routerar) til hjá Símanum né hjá innflutningsaðilanum. Þeir sem ætla sér að kaupa Internetþjónustu hjá Símanum þurfa því að bíða í eina til tvær vikur til viðbótar eftir að fá tengingu. Þrjátíu aðilar á Hólmavík hafa gert samning um að kaupa þjónustuna af Snerpu, sem tryggði lagerstöðu sína á búnaðinum fyrir nokkru.

Viðskiptavinir Snerpu bíða nú eftir því að Síminn sendi línumenn til Hólmavíkur og tengi ADSL sambandið út úr símstöðinni. Samkvæmt upplýsingum hjá Snerpu eru ennþá til á lager 3-4 beinar sem er hægt að nálgast hjá umboðsmanni Snerpu á Hólmavík.

Nú er bara að bíða og sjá hvort Síminn ætli sér að standa við skyldur sínar og tengja sambandið út úr símstöðinni. Miðað við það sem á undan er gengið er allt eins víst að Síminn reyni að draga það í lengstu lög, með þá von að færri aðilar skipti við samkeppnisaðilann. Hver og einn getur spurt sjálfan sig að því hvort það samræmist lögum um fjarskipti. Það hefur komið í ljós að Síminn ætlaði að draga sambandið með því að neita um skráningu í gær vegna þess að réttur búnaður væri ekki fyrir hendi. Það var að sjálfsögðu alrangt því Snerpa hafði tryggt fjölda viðskiptavina sínum réttan búnað sem bíða nú eftir því að Síminn opni fyrir sambandið. Viðskiptavinir Símans eru að vonum sárir yfir því að fyrirtækið hafi ekki hugsað tímanlega út þennan þátt og þurfa nú að bíða enn um stund.

Hólmvíkingar bíða og sjá til hvort símamenn koma frá Hvammstanga eða Ísafirði og eiga frekar von á því að það verði í dag en á morgun því Síminn hafi verulega þörf á að bæta ímynd sína.