13/12/2024

Nettengingar á Ströndum

Ekki bjóðast öllum Strandamönnum jafn góðar tölvutengingarÍ síðasta tölublaði Bændablaðsins er fjallað um nettengingar á Vestfjörðum og viðtal við Þórð Halldórsson á Laugarholti við Djúp í Hólmavíkurhreppi. Bændur við Djúp höfðu sent undirskriftalista til samgönguráðuneytis með ósk um úrbætur og fengið svar sem Þórður kallar "dæmigert stofnanasvar". Var íbúum vísað á að þeir geti kært til Póst- og fjarskiptastofnunar, ef þeir væru óánægðir.

Það eru ekki einungis sveitabæir og íbúar þeirra við Djúpið sem eru án möguleika á nettengisambandi og verða því að notast upphengisamband í gegnum mótald í síma, sem er mjög óstöðugt ef símasamband er slæmt. Einnig er hér um að ræða ferðaþjónustufyrirtækin í Heydal í Mjóafirði og Reykjanesi og þorskeldið á Nauteyri. Ef heimildir fréttaritara strandir.saudfjarsetur.is eru réttar mun hið sama gilda um Hótel Djúpavík í Árneshreppi. Annars staðar í dreifbýli á Ströndum eiga íbúar líklega kost á ISDN-tengingum frá Símanum.

Á Hólmavík og Drangsnesi og mörgum sveitabæjum við sunnanverðan Steingrímsfjörð geta menn komist í háhraða örbylgjusamband sem netfyrirtækið Snerpa á Ísafirði hefur byggt upp. Sendar eru á Drangsnesi og Hólmavík og speglar fyrir sendinguna þar á milli eru staðsettir í Sævangi. Öruggt má telja að hægt væri að tengja bæi á Broddanesi og Broddadalsá við sama kerfi með búnaði og e.t.v. fleiri bæi í Kollafirði, en móttakarinn á hverjum bæ þarf að vera í sjónlínu við sendibúnað.

Í Hrútafirði er einnig boðið upp á möguleika á háhraða örbylgjusambandi á mörgum bæjum í innri hluta fjarðarins. Þar er sendir frá fyrirtækinu eMax sem einnig hefur unnið að uppbyggingu örbylgjukerfis hér og þar á landsbyggðinni. 

ADSL-tengingar er hins vegar hvergi hægt að fá á Ströndum, sem er óviðunandi. Auðvitað eiga íbúar á þéttbýlisstöðunum á Ströndum að geta valið á milli örbylgjusendinga og ADSL-tenginga sem eru til dæmis forsenda fyrir að hægt sé að tengjast við sjónvarpsstöðina Skjá 1 sem er í eigu Símans í gegnum símalínu.

Eins er það sjálfsögð krafa Strandamanna allra að ríkisfyrirtækið Síminn komi án frekari málalenginga og tafa til móts við þá bæi þar sem enn skortir grundvallarþjónustu. Samgönguráðuneytið hlýtur jafnframt að þurfa að beita sér fyrir úrbótum í þessu mikilvægt byggðamáli.