Nú er undirbúningur fyrir Hamingjudaga á Hólmavík á lokastigi, enda hefjast þeir formlega síðar í dag, föstudag, með ratleik við Íþróttamiðstöðina. Meðal þess sem hefur verið í gangi við undirbúninginn er heilmikil kassabílasmiðja sem Hafþór Þórhallsson kassabílasmíðasérfræðingur sér um. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is kíkti á Hafþór og krakkana í góða veðrinu í gær og smellti nokkrum myndum af smíðavinnunni. Á morgun kl. 11:00 verður síðan kassabílarall á planinu við gamla Kaupfélagshúsið en einnig verður þjóðsögusmiðja í Félagsheimilinu kl. 9:30 á morgun þar sem Jón Jónsson þjóðfræðingur mun fara á kostum fyrir framan börn á öllum aldri.
Krakkarnir voru slyng með sögina.
Fannar Freyr herðir það sem herða þarf.
Jakob lætur spýtuna hafa það óþvegið.
Hafþór með kynstrin öll af hjólum og tólum.
Einar beitir skrallinu af lagni – vanur maður á ferð.
Kassabílarnir setja mikinn svip á bæjarlífið yfir Hamingjudagana.
Ljósm. Arnar S. Jónsson