30/10/2024

Myndir frá Þorra á Borðeyri

Þorrablótið á Borðeyri sem sagt var frá hér á strandir.saudfjarsetur.is um daginn, var haldið síðastliðið laugardagskvöld og tókst alveg með ágætum. Milli hundrað og fjörutíu og fimmtíu manns sóttu blótið. Það er með fjölmennara móti enda einmuna veðurblíða um þessa helgi í Hrútafirði. Eins og áður hefur verið talað um var ánægjulegt hversu fólk er duglegt að sækja víða að á þessi blót, aldnir sem ungir, ár eftir ár. Þemað í skemmtiatriðunum var söngur, m.a. tók kirkjukór Staðar og Prestbakkakirkna þátt með leik og söng.

Að öðru leyti sá þorrablótsnefndin um skemmtiatriðin með heimasömdu söngefni og gamanmálum. Matarborðin voru m.a skreytt með grófum striga og á hlaðborðið var sett lag af rúlluheyi undir matinn þar sem ilmur töðunnar og þorramatsins skapaði saman hina bestu stemmingu. Dansinn dunaði svo með miklu fjöri til að ganga fimm um morguninn undir leik hljómsveitarinnar SMS.

Elsti blótsgesturinn Hanna Guðný  Hannesdóttir sem  verður níræð á þessu ári skemmti sér alveg konunglega að eigin sögn og fór hún ekki heim fyrr en blótinu lauk. Undir þessum tengli og hér til vinstri undir Myndasöfn má finna fjölda mynda frá blótinu.