Í gær kepptu 8 lið í spurningakeppni Strandamanna og var keppnin oft á tíðum æsispennandi. Strandahestar voru þó spútniklið kvöldsins, en þeir lögðu Strandagaldur, sigurliðið síðan í fyrra, í æsispennandi viðureign þar sem úrslit réðust á síðasta svari. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is var að sjálfsögðu á staðnum og smellti af myndum af keppendum. Nýtt fólk var í hlutverkum spyrils, tímavarðar og tæknimanns og stóðu þau Stína, Matti og Ester sig bara býsna vel, þrátt fyrir einn og einn spaugilegan vandræðagang sem tengdist reynsluleysi þeirra á þessu sviði. Þarf ekki að efast um að slíkt slípast til fyrir næsta keppniskvöld.
Jón Jónsson forstöðumaður Sauðfjársetursins setti keppnina
Kristín S. Einarsdóttir var spyrill og dómari
Harðsnúið lið Snerpu, Ísfirðingunum gekk nú ekki vel með innansveitarspurningar. Björn, Sigurður Marinó og Jón Arnar.
Sparisjóður Strandamanna hrósaði sigri í sinni viðureign, úrslit réðust í lokaspurningu. Guðmundur, Svanhildur og Þorbjörg.
Eldri borgarar tefldu fram harðskeyttu liði sem stóð í Bitrungum, gátu enn unnið við lokaspurningu. Maríus, Áskell og Herselía.
Bitrungar komust áfram, fóru alla leið í úrslit í fyrra. Guðjón, Rögnvaldur og Ingimundur.
Galdramennirnir voru slegnir út eftir gífurlega spennandi keppni. Magnús, Ásdís og Ólafur.
Strandahestar riðu fagnandi heim eftir frækinn sigur á Strandagaldri. Victor, Jón Örn og Haraldur.
Lið Hólmadrangs – glaðhlakkalegir yfir réttu svari og góðri stöðu. Þröstur, Björn og Pétur.
Heilbrigðisstofnunin tók mikla sénsa í bjölluspurningum – og fóru flatt á því. Júlíana, Ása og Rúna Stína.