30/10/2024

Myndir af spurningakeppninni

Kennaraliðið er komið í undanúrslitÁtta liða úrslit í Spurningakeppni Strandamanna fóru fram í Félagsheimilinu á Hólmavík nú í gærkvöldi. Það er Sauðfjársetur á Ströndum sem stendur fyrir keppninni sem nú er haldin þriðja árið í röð. Allar viðureignir keppninnar í gær voru stórskemmtilegar og liðin í miklu stuði sem og áhorfendur, en keppnin var ágætlega sótt. Það er augljóst að Strandamenn stíga í vitið svo um munar ef eitthvað er að marka gang keppnanna í gærkvöldi, en stigaskor var óvenju hátt í sumum þeirra. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is var á staðnum og smellti af myndum af keppendum og gestum og gangandi.

Í fyrstu keppni kvöldsins mættust lið strandir.saudfjarsetur.is og Félagsmiðstöðvarinnar Ózon sem sló rækilega í gegn í fyrstu umferð keppninnar. Félagsmiðstöðvarfólk var án efa þjakað af þreytu eftir frækna för á Samfésball kvöldið áður, en eftir að hraðaspurningum lauk var staðan 17-13 strandir.saudfjarsetur.is í vil. Eftir það hallaði allnokkuð undan fæti hjá Ózonliðum og lokatölur keppninnar urðu 31-15 strandir.saudfjarsetur.is í hag.

Önnur keppni kvöldsins var á milli Strandahesta og Skrifstofu Hólmavíkurhrepps, en þessi lið eru þau einu sem hafa tekið þátt öll árin með óbreyttan mannskap. Reynslan gerði það að verkum að menn voru afslappaðir og skemmtilegir og tafðist keppnin allverulega við langt og mikið hláturskast liðanna við spurningu um postulann Pál, en flestir héldu þá að verið væri að tala um póstinn Pál sem er vissulega allt annar maður. Lokatölur keppninnar urðu þær að Skrifstofukonur unnu með 26 stigum gegn 19 Strandahesta, eftir að keppnin hafði verið í járnum lengst af.

Eftir hlé áttust við lið Bitrunga og Hólmadrangs. Liðin náðu háu skori úr hraða- og þemaspurningum, en eftir þær var staðan 20-20. Hólmadrangsmenn sigu síðan smám saman fram úr í bjölluspurningum en þó var enn von fyrir Bitrunga þegar kom að vísbendingaspurningum, en þá var aðeins þriggja stiga munur á liðunum. Hólmadrangsmenn stóðu sig hins vegar vel í vísbendingunum og lokatölur urðu 32-26 þeim í vil.

Síðasta keppni kvöldsins var á milli Sparisjóðs Strandamanna og kennara við Grunnskóla Hólmavíkur. Þessi keppni var jöfn nánast allan tímann og mikil barátta – Sparisjóðsmenn fylgdu sterku kennaraliði eftir sem skugginn. Lokatölur urðu á þann veg að kennararnir sigruðu með þriggja stiga mun; 27-24.

Að keppnunum loknum var dregið í undanúrslit sem fara fram sunnudaginn 20. mars í Félagsheimilinu. Þar mætast eftirtalin lið:

strandir.saudfjarsetur.is – Skrifstofa Hólmavíkurhrepps
Hólmadrangur – Kennarar Grunnskólanum Hólmavík

Sigurvegarar í þessum keppnum mætast svo síðasta kvöldið í úrslitakeppni.

 

Rut Vernharðsdóttir, Kristín Herdís Magnúsdóttir, Guðrún Þórðardóttir og Ólavía Jónsdóttir skemmtu sér hið besta á spurningakeppninni.

Lið Sparisjóðs Strandamanna í innhverfri íhugun rétt áður en þau stigu á svið.

Ungir sem aldnir skemmta sér konunglega á spurningakeppninni. Á myndinni má m.a. sjá Árna Daníelsson, Ragnheiði Runólfsdóttur og Lýð Magnússon auk fleiri ágætra Strandamanna.

Nafnarnir Jón Loftsson og sonarsonurinn Jón Örn Haraldsson. Jón Örn var fyrirliði í liði Strandahesta sem datt úr keppninni eftir mikla baráttu.

Tungusveitungarnir Karl Þór Björnsson frá Smáhömrum og Birkir Þór Stefánsson í Tröllatungu fá sér kók og kaffi í hléinu.

Guðfinnur Finnbogason í Miðhúsum segir Sverri Guðbrandssyni, Strandamanni ársins 2004, góðan brandara eða sögu í hléinu.

 

Ljósm. – Arnar S. Jónsson.