12/09/2024

Myndir af fólki og fagurri list

Alla Hamingjudagana á Hólmavík voru uppi listasýningar í Grunnskólanum á Hólmavík. Þær voru opnaðar við hátíðlega athöfn á föstudeginum, þar sem fjöldi manns hlýddi á nemendur úr Tónskólanum spila nokkur lög og einnig flutti Rúna Stína Ásgrímsdóttir, formaður menningarmálanefndar, stutta ræðu. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is var að sjálfsögðu á staðnum og fangaði augnablikið. Eitt það merkasta sem gaf að líta á sýningunum voru teikningar Tryggva Magnússonar frá Bæ á Selströnd, en hann var um margra ára skeið einn fremsti teiknari Íslendinga; teiknaði sýslumerkin, fornmannaspilin og ótal skopteikningar.

Auk þess var uppi sýning á vatnslitamyndum eftir Ástu Pálsdóttur frá Reykjanesbæ og þá var sýning á handverki Signýjar Sigmundsdóttur færð í skólann úr Steinhúsinu þar sem hún var áður. Ljósmyndararnir Gunnar Logi Björnsson og Ingimundur Pálsson héldu myndasýningar sem þóttu afar frambærilegar og einnig voru sýnd verk frá starfi eldri borgara veturinn 2005-2006. Börnin á leikskólanum Lækjarbrekku áttu sitt pláss á sýningunni þar sem sýndar voru myndir og málverk úr vetrarstarfinu auk hamingjuverka barnanna, en þar gaf m.a. að líta hamingjutré og hamingjublóm mynduð úr litlum lófaförum. Þá sýndi Sigfríð Berglind Thorlacius sýndi málverk sem þóttu skemmtileg og örlítið frábrugðin því sem tíðkast á listasýningum sem þessum.

Það voru Hildur Guðjónsdóttir og Ingibjörg Emilsdóttir á Hólmavík sem sáu um sýningarnar, stjórnuðu uppsetningu þeirra og útbjuggu sýningarskrá. Auk þess hönnuðu þær og settu upp sýninguna um Tryggva Magnússon og gerðu veglegan bækling um ævi hans og verk. Sýningarnar þóttu takast afar vel og mikil ánægja ríkti meðal þeirra fjölmörgu gesta sem heimsóttu skólann um Hamingjudagana.

1

bottom

atburdir/2006/580-listasyning.jpg

atburdir/2006/580-listasyning2.jpg

atburdir/2006/580-listasyning4.jpg

atburdir/2006/580-listasyning5.jpg

atburdir/2006/580-listasyning7.jpg

atburdir/2006/580-listasyning8.jpg

atburdir/2006/580-listasyning10.jpg

atburdir/2006/580-listasyning11.jpg

Ljósm. Arnar S. Jónsson