22/12/2024

Mugison á Mölinni

mugison

Önnur atlaga að þrettándu tónleikum Malarinnar verður gerð laugardagskvöldið 10. janúar. Nú er það enginn annar en Mugison að heiðra Strandamenn með nærveru sinni á Malarkaffi á Drangsnesi. Mugison þarf ekki að kynna fyrir nokkrum manni. Hann hefur um árabil verið einn vinsælasti tónlistarmaður landsins og hafa plötur hans selst í bílförmum. Mugison vakti fyrst athygli árið 2003 þegar hann gaf út plötuna Lonely Mountain sem hann reiddi fram í heimasaumuðu umslagi. Tónlistargrúskarar voru ekki lengi að átta sig á að þarna var eitthvað alveg sérstakt á ferðinni og í fljótlega í kjölfarið snerti Mugison streng í hjarta íslensku þjóðarinnar sem hann hefur haldið í allar götur síðan. Eftir Lonely Mountain hafa komið út plöturnar Mugimama is this Monkeymusic?, Mugiboogie og nú síðast Haglél sem seldist í yfir 20 þúsund eintökum. Allar hafa þessar plötur fallið í mjúklega í kramið jafnt hjá hlustendum sem og gagnrýnendum.

Mugison kemur, eins og áður sagði, fram á Mölinni á Malarkaffi laugardagskvöldið 10. janúar. Venju samkvæmt mun Borko ríða á vaðið og flytja lög úr sinni smiðju í upphafi tónleikanna.Tónleikarnir hefjast kl. 21:30 en húsið opnar hálftíma fyrr. Miðaverð er 2000 kr.