25/04/2024

Morð! á Hólmavík

Tvær sýningar eru framundan á leikritinu Morð sem er Þjóðleiksverkefni Leiklistarvals Grunnskólans á Hólmavík í samstarfi við Leikfélag Hólmavíkur. Leikritið var frumsýnt á Hólmavík fyrir helgi og síðan var brunað á leiklistarhátíð Þjóðleiks á Norðurlandi og Vestfjörðum í Varmahlíð í Skagafirði og sýndar þar tvær sýningar. Myndin hér af ofan er frá hátíðinni og fengin hjá Írisi Olgu Lúðvíksdóttur. Leikritið Morð er nýr einþáttungur sérstaklega skrifaður fyrir Þjóðleik og er eftir Ævar Þór Benediktsson (Ævar vísindamann) sem sýnir á sér óvænta og dekkri hlið en vanalega, því sýningin er ekki við hæfi yngri barna. Sýningar verða 2. og 4. maí í Félagsheimilinu á Hólmavík og hefjast báðar kl. 20. Leikstjóri er Ásta Þórisdóttir. Ástæða er til að hvetja Strandamenn og nærsveitunga til að fjölmenna í leikhús.

Frá sýningunni á Hólmavík – ljósm. Jón Jónsson