23/12/2024

Mikill niðurskurður í fjárlagatillögum

Mikill niðurskurður á margvíslegum verkefnum kemur fram í nýbirtum breytingatillögum ríkisstjórnarinnar og meirihluta Fjárlaganefndar fyrir aðra umræðu um fjárlög 2009. Þannig er t.d. reiknað með að vegaframkvæmdir verði skornar niður um 5,5 milljarða á næsta ári frá því sem fyrirhugað var í fjárlagafrumvarpinu í október og átak í umferðaröryggismálum er slegið af. Öll framlög til Fjarskiptasjóðs virðast tekin af, þannig að líklega er úti um háhraðanettengingar í dreifbýlinu, ef rétt er skilið. Framlög til niðurgreiðslu á hitun íbúðarhúsnæðis á köldum svæðum lækka um 200 milljónir. Af vestfirskum niðurskurði má t.d. nefna að Hornstrandastofa sem hóf starfsemi á þessu ári er lögð niður og fyrirhuguð Látrabjargsstofa slegin af.

Sundurliðanir á safnliðum verða ekki birtar fyrr en við þriðju umræðu, en þá kemur fram hvort margvísleg verkefni sem sótt hafa um framlög til Fjárlaganefndar njóta stuðnings og hvað þau fá í sinn hlut. Þetta á t.d. við um menningarverkefni, verkefni tengd húsafriðun, íþrótta- og æskulýðsmál og marga fleiri liði.

Víðast hvar eru framlög skorin niður við þessa breytingatilögur, en þó hækkar framlagið til Heilbrigðisstofnunarinnar á Hólmavík. Ástæðan er sú að niðurstaða reiknilíkans um fjárveitingu til heilsugæslustöðva og sjúkrasviða heilbrigðisstofnana sýnir að fjárveitingin hefur verið of lág.

Fræðast má nánar um breytingatillögurnar og niðurskurðinn frá hinu upprunalega fjárlagafrumvarpi þessum tengli sem vísar í sundurliðaða breytingatillögu meirihluta Fjárlaganefndar og undir þessum tengli sem vísar í nefndarálit meirihlutans með þessum breytingum.