22/11/2024

Mikill hagnaður Sparisjóðsins

Aðalfundur Sparisjóðs Strandamanna var haldinn í Sævangi þriðjudaginn 11. apríl s.l. og var þetta í 49. sinn sem aðalfundur Sparisjóðsins var haldinn þar. Áður voru aðalfundir haldnir á bæjum í Tungusveit. Sparisjóðurinn sem varð 115 ára þann 19. janúar sl. er nú elsta starfandi fyrirtækið á Ströndum. Í fréttatilkynningu kemur fram að hagnaður var rúmlega 99 milljónir á árinu 2005. Þá hefur Sparisjóðurinn tekið við umboði fyrir tryggingarfyrirtækið Sjóvá-Almennar á Ströndum.  
 

Í fréttatilkynningu segir:

Hagnaður ársins 2005 var 99,1 milljón króna og er hann að mestu af verðbréfaeign Sparisjóðsins, en gengishagnaður af veltubréfum var 98,7 milljónir króna. Hagnaður ársins svarar til þess að arðsemi eigin fjár Sparisjóðsins hafi verið 31,5%. Vaxtamunur af meðalstöðu fjármagns var um 3,7%, en var 4,8% árið áður. Hlutfall rekstrarkostnaðar af hreinum rekstrartekjum var 28,2% en var 23,6% árið áður.

Samkvæmt efnahagsreikningi hafa útlán aukist um 20,2% á milli ára og voru í árslok 494,5 milljónir króna. Innlán hafa aukist á milli ára um 39% og voru í árslok 480,5 milljónir króna. Eigið fé Sparisjóðsins var í árslok um 414,4 milljónir króna en var 314,9 milljónir árið áður og hefur því aukist um 31,6% á milli ára. Eiginfjárhlutfall skv. CAD reglum er um 31,5% en var 27% árið áður og má það ekki vera lægra en 8%.

Fram kom að Sparisjóðurinn hefur tekið við umboði fyrir Sjóvá-Almennar tryggingar hf. á svæðinu og einnig að stefnt er að þátttöku í rekstri þjónustumiðstöðvar þriggja sparisjóða í Reykjavík, en fyrirhuguð opnun hennar er í ágúst nk. Framlög Sparisjóðsins á árinu til menningar- og íþróttastarfs í héraðinu ásamt stuðningi við ýmis líknar- og góðgerðarfélög í landinu námu um 1,2 milljónum króna.

Á fundinum voru samþykktar tillögur um aukningu og sölu stofnfjár, annars vegar um tvöföldun stofnfjárhluta með forkaupsrétti stofnfjáraðila og hins vegar framlengingu á heimild stjórnar til sölu 35 stofnfjárhluta.

Stjórn sparisjóðsins var öll endurkjörin en í henni eru: Björn Torfason, Sigurður Jónsson, Guðjón Sigurgeirsson, Þórður Sverrisson og Jenný Jensdóttir.