28/04/2024

Mikið fjör á Náttúrubarnahátíð á Ströndum!

Náttúrubarnahátíð á Ströndum var haldin í fyrsta skipti um helgina af Náttúrubarnaskólanum sem starfar á Sauðfjársetrinu í Sævangi. Óteljandi uppákomur tengdar útivist og listum voru á dagskránni og fróðleik miðlað um ýmislegt tengt náttúrunni, bæði hvernig má nýta hana í skapandi og skemmtilegum verkefnum og einnig hvernig má vernda umhverfi og náttúru. Á hátíðina mættu alls hátt í 200 náttúrubörn víða af landinu og á öllum aldri, frá nokkura mánaða aldri og upp í 80 ára.

Hátíðin hófst á skemmtilegri gönguferð um fjöruna og sameiginlegum veðurgaldri, en ljóst er að finna þarf leiðir til að magna þann galdur töluvert og gera hann öflugri. Þó skein sól á hátíðargesti af og til og það var hlýtt og þurrt, en það var heldur mikill vindbelgingur alla helgina. Fólk lét vindinn ekki stoppa sig í að taka virkan þátt í gleðinni – útieldun, taktsmiðju, fara á hestbak og meira að segja í sjósund.

Dagrún Ósk Jónsdóttir sem hefur starfstitilinn yfirnáttúrubarn og er í forsvari fyrir hátíðina segir að stefnan sé að endurtaka leikinn á næsta ári: „Þetta var frábærlega skemmtilegt, gaman að kynnast fólkinu sem kom og ég held að það sé ótrúlega mikilvægt fyrir fjölskyldur að skemmta sér saman og búa þannig til góðar minningar. Ég er bara strax farin að hugsa um og skipuleggja næstu hátíð!“

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá Náttúrubarnahátíðinni.

Náttúrubarnahátíð á Ströndum – Ljósm. Dagrún Ósk og Jón Jónsson