22/12/2024

Menntastoðir í fjarnámi til Hólmavíkur

Nú gefst fólki á Norðurlandi og Vestfjörðum tækifæri til að stunda nám í Menntastoðum með dreifnámsfyrirkomulagi eða fjarfundabúnaði. Markmið Menntastoða er að stuðla að jákvæðu viðhorfi námsmanna til áframhaldandi náms og auðvelda þeim að takast á við ný verkefni. Í náminu er lögð áhersla á að nemendur læri að læra, efli sjálfstraust sitt og lífsleikni. Helstu námsgreinar eru stærðfræði, íslenska, upplýsingatækni, enska og danska. Menntastoðir eru nám á framhaldsskólastigi og gefur um 50 einingar inn í Háskólabrú Keilis. Aldurstakmark er 20 ár. 

Menntastoðir þær sem í boði eru á Hólmavík hefjast 5. nóvember 2010 og náminu lýkur í lok maí 2011. Námið hefst á tveimur vinnuhelgum og kennt er frá hádegi á föstudegi fram á sunnudag. Mikilvægt er að allir nemendur mæti þá til Akureyrar. Skráning og nánari upplýsingar um námið er hjá SÍMEY í síma 460-5720, betty@simey.is, valgeir@simey.is eða á www.simey.is. Skráningu lýkur 2. nóvember 2010.

Dreifnámið felst í því að kennt er einu sinni í viku á þriðjudögum frá kl. 16:00-21:00 og annan hvern laugardag frá kl. 09:00-17:00. Kennslan fer fram á Akureyri en þeir sem búa annars staðar geta sótt námið í gegnum fjarfundabúnað í námsverum, meðal annars á Hólmavík. Námið er skipulagt í samvinnu við símenntunarmiðstöðvar SÍMEY, Farskólann á Norðurlandi vestra, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Þekkingarnet Þingeyinga.