05/10/2024

Menningarráð Vestfjarða auglýsir eftir styrkumsóknum

Menningarráð Vestfjarða hefur auglýst eftir styrkumsóknum vegna seinni úthlutunar Menningarráðsins árið 2010. Til úthlutunar verða um það bil 15 milljónir að þessu sinni, en frá því að ráðið var stofnað á árinu 2007 hefur það styrkt fjölmörg verkefni og hafa einstakir styrkir verði á bilinu 50 þúsund til 1,5 milljón. Hægt er að sækja um stuðning við alls kyns afmarkaðra menningarverkefna, en samkvæmt ákvörðun stjórnar Menningarráðsins verður að þessu sinni litið sérstaklega til menningarverkefna sem fela í sér eftirtalda þætti:

a. Eflingu samstarfs á sviði menningarmála á svæðinu
b. Nýsköpun í verkefnum tengdum menningu
c. Fjölgun atvinnutækifæra í tengslum við menningarstarf á svæðinu
d. Eflingu menningartengdrar ferðaþjónustu og ferðatengdrar menningarstarfsemi

Bent er á að nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Menningarráðs Vestfjarða – www.vestfirskmenning.is – þar sem meðal annars má finna úthlutunarreglur, upplýsingar um fyrri styrki og rafrænt umsóknareyðublað. Einnig gefur menningarfulltrúi Vestfjarða allar nánari upplýsingar í síma 891-7372 eða menning@vestfirdir.is. Umsóknarfrestur er til og með 27. október 2010.