Menningarráð Vestfjarða auglýsir nú eftir umsóknum um styrki í tveimur flokkum á grundvelli samnings mennta- og menningarmálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis við Fjórðungssamband Vestfirðinga vegna ársins 2012. Tilgangur styrkjanna er að efla menningarstarfsemi og menningartengda ferðaþjónustu á Vestfjörðum og eru umsóknir og verkefni hverju sinni borin saman á samkeppnisgrundvelli. Nú er í fyrsta skipti auglýst eftir stofn- og rekstrarstyrkjum með umsóknafresti til 30. mars og verkefnastyrkjum með umsóknafresti til 10. apríl.
Stofn- og rekstrarstyrkir
Nú auglýsir Menningarráð Vestfjarða í fyrsta skipti eftir umsóknum um stofn- og rekstrarstyrki. Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér úthlutunarreglur vandlega á vefnum www.vestfirskmenning.is, en til ráðstöfunar í stofn- og rekstrarstyrki eru samtals 11,4 milljónir að þessu sinni. Umsækjendur þurfa að skila ítarlegum upplýsingum um starfsemi sína, þar á meðal síðasta ársreikningi. Menningarráð Vestfjarða hefur ákveðið að við úthlutun stofn- og rekstrarstyrkja 2012 verði horft sérstaklega til umsækjenda sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna atriða:
# Stuðla að því að efla menningarstarfsemi á sviði lista, safna- og menningararfs.
# Stuðla að nýsköpun í menningarstarfsemi.
# Styðja við menningarstarfsemi sem fjölgar atvinnutækifærum á svæðinu.
Umsóknarfrestur um stofn- og rekstrarstyrki er til og með 30. mars 2012.
Verkefnastyrkir
Jafnframt er auglýst eftir umsóknum um verkefnastyrki, en vakin er athygli á að á árinu 2012 verður aðeins auglýst eftir verkefnastyrkjum í þetta eina skipti. Hægt er að sækja um stuðning við hverskyns menningarverkefni, en til hliðsjónar eru úthlutunarreglur sem samþykktar eru við hverja úthlutun. Fylgiskjöl með umsóknum um verkefnastyrki eru afþökkuð, allt sem skiptir máli á að koma fram í umsókninni sjálfri. Menningarráð Vestfjarða hefur ákveðið að við úthlutun verkefnastyrkja 2012 verði horft sérstaklega til verkefna sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna atriða:
# Verkefni sem efla samstarf á sviði menningarmála á Vestfjörðum.
# Verkefni sem stuðla að nýsköpun og fjölbreytni í menningartengdum verkefnum.
# Verkefni sem fjölga atvinnutækifærum á sviði menningar.
# Menningarstarfsemi sem styður við ferðaþjónustu.
Umsóknarfrestur um verkefnastyrki er til og með 10. apríl 2012.
Allar nánari upplýsingar gefur Jón Jónsson menningarfulltrúi Vestfjarða í síma 891-7372 eða í netfanginu menning@vestfirdir.is. Umsóknareyðublöð, úthlutunarreglur og upplýsingar eru á www.vestfirskmenning.is.