22/12/2024

Menningarráð úthlutar styrkjum á Reykhólum

Seinni úthlutun Menningarráðs Vestfjarða á árinu 2009 fer fram í Hlunnindasafninu á Reykhólum nú á föstudaginn 4. desember og hefst athöfnin kl. 16:00. Verða þar afhent vilyrði um styrki frá Menningarráði Vestfjarða, en alls fá 37 verkefni framlög að þessu sinni á bilinu 150 þúsund til 1 milljón, samtals að upphæð 18,5 milljón. Umsóknir sem bárust að þessu sinni voru 89 og var samtals beðið um 75 milljónir í verkefnastyrki.

Styrkirnir fara til margvíslegra verkefna sem sýna að sóknarhugur og bjartsýni eru ríkjandi í vestfirsku menningarlífi, þrátt fyrir þrengingar og niðurskurð á fjölmörgum sviðum í samfélaginu. Öllum styrkumsóknum sem bárust hefur verið svarað í tölvupósti á þau netföng sem gefin voru upp í umsóknum með niðurstöðu hvað varðar einstakar umsóknir. Heildarlisti um styrkt verkefni verður birtur á vef Menningarráðsins og sendur fjölmiðlum eftir athöfnina á Reykhólum. Menningarráð Vestfjarða mun næst auglýsa eftir umsóknum um styrki fljótlega á nýju ári.

Athöfnin er opin öllum og þeir sem standa í eldlínunni í menningarstarfi á Vestfjörðum og sveitarstjórnarmenn eru sérstaklega boðnir velkomnir. Á dagskrá eru erindi og afhending styrkja og í lokin á þessari formlegu athöfn verður boðið upp á léttar veitingar.