30/10/2024

Málverkasýning í sundlauginni

Við opnun nýrrar sundlaugar á Drangsnesi þann 9. júlí s.l var á sama stað og tíma opnuð ein af myndlistarsýningum Bryggjuhátíðar sem verður 16. júlí nk. Bjarni Elíasson sýnir 10 málverk í húsnæði sundlaugarinnar. Öll verkin eru unnin í olíu á striga og eru í einkaeign. Bjarni er fæddur árið 1933 á Mýrum á Selströnd. Þar ólst hann upp. Frá árinu 1959 flytur hann á Norðurlandið og bjó þar næstu 20 árin á Dalvík, Húsavík og á Akureyri. Ævistarf Bjarna var við sjómennsku og smábátaútgerð. Bjarni hefur verið búsettur í Reykjavík frá 1979 en dvalið lengst af á Mýrum og gerði út frá Drangsnesi til ársins 2000.

Bjarni El eins og hann er kallaður manna á meðal hefur teiknað og málað bátana sína í 40 ár en hann byrjaði ekki að mála með olíulitum fyrr en fyrir um það bil 9 mánuðum síðan og er afraksturin sýndur á þessari sýningu í sundlauginni á Drangsnesi.
Það má segja að þarna sé ævisaga Bjarna skráð í stórum dráttum eins og segir í sýningarskránni. Sýningin er opin á opnunartíma sundlaugarinnar frá 10 til 21 dag hvern. Þessi sýning er sjálfstæð þó hún sé að vissu leyti hluti Bryggjuhátíðar sem haldin verður nú í 10. sinn næsta laugardag. Sýningarskrá og gestabók liggja frammi.

Frá sýningunni í nýju sundlauginni – ljósm. Jenný Jensdóttir