02/05/2024

Lokatörnin í frábærri Barnamenningarhátíð

640-vordagur5

Nú um helgina er framundan lokatörnin á aldeilis frábærri Barnamenningarhátíð í Strandabyggð sem hefur staðið alla vikuna. Í dag ber hæst Festivalið Húllumhæ sem hefst í Félagsheimilinu á Hólmavík kl. 12:00 á hádegi. Þar verður m.a. í boði töfrasýning sem töframaðurinn Jón Víðis stendur fyrir, söngatriði í söngleiknum Horn á höfði sem Grunnskólinn á Drangsnesi frumsýndi gær verður einnig á dagskránni og tónlistaratriði frá Tónskólanum á Hólmavík. Heitt verður á könnunni. Kl. 14:30 verður Fjölskyldugleði í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík, uppsett leiktæki og tónlist. Kl. 15:00 hefjast svo tónleikarnir Syngjandi konur í Hólmavíkurkirkju þar sem markhópurinn er frekar þeir fullorðnu og kl. 16:00 hefst svo LAN í Ungmennahúsinu Fjósinu á Hafnarbrautinni (ofan við Sparisjóðinn).