22/12/2024

Listamannaverbúð og lífróður á Ströndum

Nú stendur yfir á vegum Þjóðfræðistofunnar á Hólmavík svokölluð Listamannaverbúð á Ströndum. Þar er um að ræða stefnumót þátttakenda í sýningu og málþingi Hafnarborgar sem halda á syðra í haust undir yfirskriftinni Lífróður, við heimamenn á Ströndum. Lista- og fræðimenn eru nú staddir á Ströndum í tengslum við þetta verkefni og vinna að listsköpun, hitta kollega sína og heimamenn og velta fyrir sér grunnhugmynd sýningarinnar sem á að fjalla um hafið í sjálfsmynd Íslendinga, táknmyndir og merking hafsins í hugum fólks. Leitað verður fanga í náttúru og mannlífi Stranda, skroppið út á sjó og inn í beitingarskúr, fornleifar og minjar skoðaðar, farið í fjöruferðir og kannaðir möguleikar á listsköpun úr rekaspýtum og fleiru sem rekur á fjörur Strandamanna.

Forstöðumaður Þjóðfræðistofunnar, Kristinn Schram, samstarfskona hans Katla Kjartansdóttir þjóðfræðingur og Ásta Þórisdóttir myndlistarmaður eru þátttakendum innan handar, sjá um skipulagningu og tengja saman gesti og heimamenn. Verkefnið er styrkt af Menningarráði Vestfjarða.