Það er mikið fjör á Ferðasýningunni 2007 í Fífunni í Kópavogi, en hún verður opin í dag, sunnudag, frá 11-18. Fjöldi fólks kom í heimsókn í gær og Vestfirðingar og Strandamenn sem voru meðal sýnenda skemmtu sér konunglega við að kynna sitt svæði, þjónustu eða söluvarning. Upplýsingamiðstöðin á Hólmavík tekur eins og undanfarin ár þátt í sýningarhaldinu og fulltrúi hennar heldur merki ferðaþjónustu á Ströndum á lofti. Þrjár sýningar eru þarna undir sama þaki, auk ferðatorgsins eru þarna Sumarið 2007 og Golf 2007. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is rölti um sýninguna og tók nokkrar myndir í gær.
Venjan er að skemmtiatriði komi frá hverjum landshluta á ferðasýningum. Fyrir Vestfirði var það Tríó Kristjáns Hannessonar sem tróð upp á stóra sviðinu. Þeir félagar byrjuðu rólega, en fljótlega jókst trukkið og innlifunin var mikil á köflum – Óli Sveinn, Jón Páll, Haukur Vagns og Gylfi.
Sigríður Helgasdóttir sem er með gistingu og rútufyrirtæki á Þingeyri, Soffía Haraldsdóttir á Hótel Flókalundi og Pétur Guðmundsson í Ófeigsfirði fylgjast með skemmtuninni.
Sævar Pálsson formaður Ferðamálasamtakanna og Áslaug Alfreðsdóttir á Hótel Ísafirði leggja á ráðin.
Stund milli stríða – Sigurrós Sigurðardóttir hjá Ferðaþjónustunni Grunnavík, Haukur Vagnsson í Bolungarvík og Jón Páll forstöðumaður Markaðsstofunnar slappa af.
Guðjón Kristinsson frá Dröngum spjallar við örninn.
Óli Sveinn frá Tálknafirði og Anna kona hans. Myndin gæti heitið "Á vegamótum" því þau sitja undir heilmiklum vegvísi sem er á miðju ferðatorginu.
Strandamenn er víða að finna. Í bás Ferðaþjónustu bænda störfuðu Marteinn Njálsson formaður félags ferðaþjónustubænda og kona hans Erna Guðný Jónsdóttir sem reka ferðaþjónustu á Suður-Bár, í grennd við Grundarfjörð. Marteinn er sonur Njáls Gunnarssonar sem ólst upp á Njálsstöðum í Árneshreppi og Helgu Soffíu Gunnarsdóttir sem er af Snæfellsnesinu.
Drangeyjarjarlinn Jón Eiríksson var valinn Ferðafrömuður ársins 2007 og var heiðraður á sýningunni í gær af því tilefni. Sá titill hefur einu sinni ratað norður á Strandir, en Jón Jónsson á Kirkjubóli hlaut hann þegar ferðafrömuður ársins var valinn í fyrsta skipti árið 2003.
Vestfirskir stórlaxar huga að bæklingunum. Jón Friðrik Jóhannsson ferðabóndi í Grunnavík, Atli Pálmason frá Ferðaþjónustunni Heydal í Mjóafirði og Jónas Helgason í Æðey bera saman bækur sínar.
Ljósm. Jón Jónsson.