05/11/2024

Líður að opnun tilboða í netvæðingu sveitanna

Þau eru mörg steintröllin í sveitinniNú líður að opnun tilboða í að háhraðatengja staði í dreifbýlinu þar sem slík uppbygging fer ekki fram á markaðsforsendum, en Fjarskiptasjóður frestaði eins og kunnugt er í sumar opnun tilboða til 4. september. Breytingar hafa verið gerðar nú í lok ágúst á listanum um þá staði sem á að tengja með háhraðaneti og á Ströndum hafa bæirnir Bakki í Kaldrananeshreppi, Kolbeinsá 1 og 2 í Bæjarhreppi og Bræðrabrekka, Kirkjuból, Smáhamrar 2 og Stakkanes í Strandabyggð verið felldir út af lista um þá staði sem tengja á með háhraðafarnetsþjónustu og eru sagðir á þjónustusvæði markaðsaðila. Ekki er ljóst á þessari stundu hvað þetta þýðir nákvæmlega.

Eins og menn vita eru höfuðstöðvar fréttavefjarins strandir.saudfjarsetur.is á bænum Kirkjubóli við Steingrímsfjörð og vefurinn hefur verið rekinn þaðan þrátt fyrir hægt og hnökrótt samband síðan 2004, auk þess sem ekki hefur  verið kostur á öðru en að greiða sérstaklega fyrir niðurhal. Ef engar breytingar á nettengingu bæjarins eru sjáanlegar í nánustu framtíð verður vefurinn lagður niður í haust. Vera kann að átt sé við Kirkjuból í Langadal í sama hreppi í lista Fjarskiptasjóðs þar sem greint er frá þessari breytingu og eins og áður segir áttar fréttaritari sig ekki á hvað í henni felst.

Ekkert bólar hins vegar á þeim bæjum sem bent var á hér á vefnum í sumar að vantaði á listann í Strandabyggð. Ekki er vitað hvort Fjarskiptasjóður eða sveitarfélagið ber ábyrgð á því, en samkvæmt upplýsingum strandir.saudfjarsetur.is fengu sveitarstjórnir listana til yfirlestrar og athugasemda.

 ATH ritstjóra 3. sept.: Í tilefni dagsins tók innsetning fréttarinnar alllangan tíma, hún birtist fyrst fyrir 8 að morgni, en ekki fullgerð fyrr en í hádeginu 2. sept. Fróðir menn hafa síðan bent ritstjóra á að þessir tilteknu bæir séu teknir af lista yfir þá sem eigi að fá háhraðafarnetsþjónustu, en eftir sem áður séu þeir á lista yfir þá bæi sem tengja á háhraðaneti með útboðinu. Hvað í þessu felst er ekki vitað nákvæmlega.