13/09/2024

Leynifélagið Leyndó

Fyrir nokkru var stofnað leynifélag á Ströndum, þó ekki sé vitað hvenær þar sem stofnun þess er mjög mikið leyndarmál. Tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is hefur hlerað að það sé svo mikið leynifélag að enginn viti við hvað það starfi, hvað þá félagar þess. Fréttavefurinn hefur ekki fleiri fregnir af þessu mikla leynifélagi sem fer huldu höfði í samfélaginu. Svo virðist sem fleiri leynifélög starfi á Vestfjörðum, til að mynda hefur frést af miklu leynifélagi á Ísafirði. Það félag heitir Academia Vestfiarda og er gríðarmikið leyndó. strandir.saudfjarsetur.is mun kappkosta að fletta ofan af þessum leynireglum og finna út hvað það er sem þau sýsla við sem ekki má líta dagsins ljós. Í Reykhólasveit er líka eitt stærsta huldusamfélag landsins, en það er minna leyndó en önnur leyndarfélög á Vestfjörðum. Starfsemi þess er hulið flestu mannfólki, enda alvöru huldufólk eingöngu félagar með öllu sem því fylgir.