30/10/2024

Leitað að framkvæmdastjóra fyrir Hamingjudaga

Hamingjuskraut í bláa hverfinuStrandabyggð leitar nú að framkvæmdastjóra fyrir Hamingjudaga á Hólmavík næsta sumar, en ákveðið hefur verið að hátíðin verði  haldin helgina 3.-5. júlí. Frestur til að sækja um starfið hefur nú verið framlengdur til 18. mars og á að skila umsóknum á skrifstofu sveitarfélagsins. Á fundi Menningarmálanefndar Strandabyggðar á dögunum kom fram að hátíðin fékk milljón króna framlag á fjárhagsáætlun Strandabyggðar fyrir árið 2009 og lýsir nefndin yfir ánægju sinni með þá ákvörðun.

Á sama fundi var rætt um hátíðina á síðasta ári og skýrslu Brynju Bjarnfjörð Magnúsdóttur framkvæmdastjóra Hamingjudaga 2008. Í skýrslunni er rakið hvernig hver og einn dagskrárliður gekk fyrir sig, ásamt undirbúningi hátíðarinnar og fjármálahlið.

Í umræðum um hátíðina kom m.a. fram að funda þyrfti eigi síðar en að hálfum mánuði eftir að hátíðinni lýkur til að fara yfir framkvæmdina. Þá var rætt um veðrið sem var með versta móti síðastliðið sumar, ósanngjarna   fjölmiðlaumræðu og breytingar sem urðu á dagskrá á síðustu stundu, þannig að sumir auglýstir dagskrárliðir voru ekki til staðar. Þá var rætt um fylgifiska þess að þurfa að halda hátíðina innan dyra. Þar má m.a. nefna að hljóðmálin voru afleit bæði á skemmtun að deginum og kvöldinu. Sala á merktum vörum (bolir og sundpokar) var með minna móti og telur Menningarmálanefnd að sá markaður sé e.t.v. að verða mettur.