Í kaffiboði Leikfélags Hólmavíkur og Sauðfjársetursins í Sævangi í gær kom fram að lögð hafa verið drög að því að fá Elvar Loga Hannesson leikara og leikstjóra til að halda leiklistarnámskeið á Ströndum í haust og hefur nóvembermánuður verið nefndur í því sambandi. Þetta fer þó nokkuð eftir önnum Elvars Loga og gengi hans við sýningar á garpinum Gísla Súrssyni, en nú um stundir mun hann vera í Þýskalandi að leika Gísla súra fyrir Þjóðverja. Í kaffiboðinu kom einnig fram mikill áhugi á að haldið verði leikhússport eins og síðasta haust, e.t.v. í framhaldi af námskeiðinu. Þá er skemmtikvöld í undirbúningi þannig að ljóst er að nóg verður um að vera í leiklistinni í vetur.