Á fundi hreppsnefndar Hólmavíkurhrepps þann 8. nóvember síðastliðinn var lánsþörf hreppsins vegna framkvæmda á árinu 2005 endurmetin. Virðist hafa komið í ljós að framkvæmdir yfirstandandi árs hafi kostað töluvert meira en að var stefnt. Í fundargerðinni segir að lagt hafi verið fram erindi til hreppsnefndar frá sveitarstjóra, þar sem gerð var grein fyrir skuldastöðunni og gerð grein fyrir hagkvæmni þess "að taka frekar lán en að vera með allt á yfirdrætti" eins og segir orðrétt í fundargerðinni. Samþykkt var að taka lán að upphæð 45 milljónir til viðbótar við áður samþykkta lántöku.