14/12/2024

Landsráðstefna um Staðardagskrá 21

HólmavíkDagana 8.-9. febrúar nk. verður 10. landsráðstefnan um Staðardagskrá 21 haldin að Hótel Örk í Hveragerði. Meginþemu ráðstefnunnar eru tvö; annars vegar tengsl umhverfis og heilsu, og hins vegar spurningin „Hvernig getur sjálfbær þróun skapað ný störf“. Ráðstefnan hefst kl. 13.30 á föstudag með setningarávörpum Þórunnar Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, og Aldísar Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra Hveragerðisbæjar.

Við upphaf ráðstefnunnar verður einnig haldin sérstök undirritunarathöfn, þar sem fulltrúar nokkurra sveitarfélaga, ásamt umhverfisráðherra, undirrita skjöl til staðfestingar á aðild viðkomandi sveitarfélaga að Ólafsvíkuryfirlýsingunni. Í þessari athöfn taka þátt fulltrúar Vesturbyggðar, Hvalfjarðarsveitar, Kjósarhrepps, Sveitarfélagsins Garðs, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Bolungarvíkurkaupstaðar. Hugsanlegt er að fleiri bætist í hópinn ef fleiri sveitarstjórnir verða búnar að samþykkja yfirlýsinguna í tæka tíð.
 
Á fyrri degi ráðstefnunnar verður sjónum einkum beint að tengslum umhverfis og heilsu. Meðal fyrirlesara þann dag verða Espen Koksvik frá norska umhverfisráðuneytinu, en hann er einn þeirra sem gerst þekkja til vinnu og rannsókna með þessi tengsl á norrænum vettvangi. Þá má nefna erindi Mörthu Ernstdóttur, sjúkraþjálfara, um mikilvægi útivistar og hreyfingar fyrir geðheilsu manna, erindi Önnu Maríu Pálsdóttur frá SLU í Svíþjóð um skipulag útisvæða og áhrif þess á heilsuna, svo og erindi Matthildar Kr. Elmarsdóttur um áhrif aðgengis að náttúru á heilsu manna. Um kvöldið verður sérstök kvölddagskrá. Þar flytur Halldór Halldórsson, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, hugleiðingu um það hvernig sjálfbær þróun geti skapað ný störf.
 
Laugardagsmorguninn 9. febrúar verður fram haldið umræðunni frá kvöldinu áður um þessa sömu spurningu, þ.e. um það hvernig sjálfbær þróun geti skapað ný störf. Fyrirkomulag þessa hluta verður í grófum dráttum þannig, að fyrst verða flutt nokkur 15 mínútna erindi, þar sem spurningunni verður svarað út frá ólíkum sjónarhólum. Þar munu m.a. heyrast viðhorf fræðasamfélagsins, áhugafólks og fulltrúa einstakra atvinnugreina, stórra og smárra. Meðal fyrirlesara í þessum hluta ráðstefnunnar verða Þorsteinn I. Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Rögnvaldur J. Sæmundsson, dósent og forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar HR í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum, Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálstjóri, og Árni Jósteinsson, atvinnuráðgjafi hjá Bændasamtökum Íslands og umsjónarmaður átaksverkefnisins „Sóknarfæri til sveita“.

Að erindunum loknum verður þessi sama spurning rædd í pallborði undir stjórn Ævars Arnar Jósepssonar, með fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem eiga mann á Alþingi. Þar taka þátt m.a. Kolbrún Halldórsdóttir, Höskuldur Þórhallsson og Dofri Hermannsson. Þessum umræðum á að vera lokið um hádegisbil.
 
Ráðstefnustjórar verða Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Guðmundur Þór Guðjónsson, forseti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar.
 
Aðsókn af ráðstefnunni er þegar komin fram úr björtustu vonum, en skráðir þátttakendur eru rúmlega 130 talsins. Dagskrána í heild er að finna á heimasíðu Staðardagskrá 21 á Íslandi, www.samband.is/dagskra21, undir tenglinum „Á döfinni“ við vinstri jaðar síðunnar.