10/09/2024

Landsmót hagyrðinga á Hólmavík

Landsmót hagyrðinga árið 2006 verður haldið á Hólmavík næstkomandi haust, laugardaginn 26. ágúst. Þetta verður í 18. skipti sem landsmótið verður haldið. Landsmótin sækja hagyrðingar víðs vegar af landinu og aðrir sem áhuga hafa fá að taka þátt í gleðskapnum. Landsmót hagyrðinga hófust á Skagaströnd 9. sept. 1989 þegar nokkrir hagyrðingar sem safnast höfðu saman til að snæða lamb og leika með stuðla, ákváðu að hittast á sama tíma að ári liðnu á Hveravöllum.

Á Hveravöllum mættust nær 30 Norðlendingar og Sunnlendingar og tveggja manna nefnd Jóa í Stapa (Jóhanns Guðmundssonar) og Inga Heiðmars Jónssonar (þá báðir búsettir í Hrunamannahreppi) fékk umboð til að velja næsta stað. Á Laugum í Dalasýslu var hagyrðingamótið 1991 og þangað voru boðaðir bréflega hagyrðingar víða að af landinu og fjölmiðlum voru sendar tilkynningar um mótið. Sólarsinnis heldur mótið kringum landið síðan, Skúlagarð 1992, Hallormsstað 1993 og Flúðir 1994, en þar var haldinn almennur fundur síðdegis og samþykkt núverandi skipulag mótanna, 5 manna landsnefnd sem starfar að undirbúningi mótanna undir stjórn þess sem býr í viðkomandi fjórðungi eða Landnámi Ingólfs. Á Laugum kom fram fyrsti veislustjórinn, Haukur á Snorrastöðum, en Keldhverfingar leiddu fram fyrsta sinni heiðursgest, Starra í Garði.

Í Reykjavík var fjölmennt mót í Bændahöllinni 1995, þá Núpur 1996, Varmahlíð 1997, Seyðisfjörður 1998, Laugaland í Holtum 1999, Reykjavík 2000, Hvanneyri 2001, Akureyri 2002, Djúpivogur 2003, Hvolsvöllur 2004 og Reykjavík 2005.

Núverandi landsnefnd skipa Jón Jónsson Kirkjubóli, Stefán Vilhjálmsson Akureyri, Þorsteinn Bergsson Unaósi, Ragnar Böðvarsson Selfossi og Sigrún Haraldsdóttir Reykjavík.

Fyrrverandi landsnefndarmenn kallast öldungaráðsmenn og koma til liðs þegar hentar. Þar í hópi eru áðurnefndir Ingi Heiðmar og Jóhann Guðmundsson. Sigurður Sigurðarson hefur lagt fyrirtækinu mikið og gott lið allt frá mótinu á Laugum ´91 og þangað kom líka á sitt fyrsta hagyrðingmót Sigvaldi Jónsson á Húsavík sem skipulagði mótið í Skúlagarði með miklum ágætum og mótið í Varmahlíð 5 árum síðar ásamt Jóa í Stapa.

Eftirminnilegt frá Laugamótinu var þegar Guðmundur Ingi reis úr sæti sínu meðan á borðhaldi stóð og mælti fram:

                                  Það er ljúft í munni og maga
                                   mínum þetta lambaket.
                                   Illa held ég endi saga.
                                   Yfir mig af því ég ét.
 
                                   Ég er orðinn meira en mettur,
                                   mætti kyssa fyrir það.
                                   Yndislegur eftirréttur
                                   átið hefur fullkomnað.

Nú eru mótin aftur komin að Húnaflóanum en Hólmavík hýsir mótið 2006.