22/12/2024

Súpufundur: Landið undir Drangajökli og þróun jökulsins frá 1946

drangajokull

Í vetur verða haldnir súpufundir þar sem margvíslegt félagsstarf og fyrirtæki eru kynnt, vísindi og verkefni, fróðleikur og fræði. Á fyrsta súpufundi vetrarins sem er hádegisfundur á Café Riis föstudaginn 21. okt. og hefst kl. 12:10, kemur Eyjólfur Magnússon frá Jarðvísindastofnun Háskólans í heimsókn. Eyjólfur er innfæddur Strandamaður, alin upp á Krossnesi í Árneshreppi með útsýni á Drangajökul úr heimahögunum. Hann er jarðeðlisfræðingur að mennt, lauk B.S. og meistaraprófgráðu frá Háskóla Íslands og doktorsprófgráðu frá Háskólanum í Innsbruck í Austurríki. Rannsóknir hans hafa að mestu tengst íslenskum jöklum og á síðustu árum hefur talverður hluti þeirra snúið að Drangajökli.

Í erindi sínu mun Eyjólfur segja frá kortlagningu á landinu undir Drangajökli en landið sem hann þekur var mælt með íssjá (ratsjá sérhæfð til mælinga á jökli) sem dregin var um 600 km eftir yfirborði jöklsins í lok mars 2014. Út frá þessum mælingum hefur verið unnið eitt nákvæmasta botnhæðarkort sem til er af íslenskum jökli, sem og kort af jökulþykktinni. Einnig verður greint frá því hvernig jökullinn hefur þróast frá 1946 út frá 9 hæðarkortum, gerð út frá loftmyndum, leisimælingum úr flugvél og gervihnattaljósmyndum.

Samantekið sýna þessi gögn að rúmmál Drangajökuls hefur minnkað um ~1/6, úr ~18 km3 haustið 1946 í ~15 km3 haustið 2014. Á sama tíma hefur flatarmál jökulsins minnkað úr 161 km2 í 143 km2. Breytingarnar eru mun hægari á vesturhluta jöksins en á austurparti hans. Að jafnaði hefur árleg rýrnun vesturhluta jökulsins frá 1946 svarað til ~15 cm þykks vatnslags jafndreift yfir þann hluta jökulsins. Líklega hefur engin jökull á Íslandi verið eins nærri jafnvægi síðustu 70 ár og vesturhluti Drangajökuls. Rýrnun austurhluta Drangajökuls hefur að jafnaði verið um þrefalt hraðari en vesturhlutans. Þróun austurhluta jökulsins svipar mun meira til þróunar annara jökla á Íslandi síðustu 70 ár.

Rannsóknirnar sem Eyjólfur mun segja frá hefur hann unnið að í samstarfi við Joaquín M. C. Belart, Finn Pálsson, Leif Anderson, Ágúst Þ. Gunnlaugsson og Áslaugu Geirsdóttur á Jarðvísindastofnun Háskólans, Philippe Crochet og Hálfdán Ágústsson á Veðurstofu Íslands og Etienne Berthier við Paul Sabatier Háskólann í Toulouse í Frakklandi. Rannsóknirnar voru fjármagnaðar af Rannís sem hluti af öndvegisverkefninu ANATILS og af TRI sem hluti af Samnorræna öndvegissetrinu SVALI.

Það eru Rannsóknasetur HÍ á Ströndum og Þróunarsetrið á Hólmavík sem standa fyrir fundunum í samstarfi við veitingastaði í héraðinu. Þeir sem búa yfir fróðleik sem hentar þessum uppákomum eru hvattir til að hafa samband við Jón Jónsson þjóðfræðing (jonjonsson@hi.is).