23/12/2024

Lambakjötið alltaf vinsælt

KindurInnanlandssala á lambakjöti var 11% meiri í mánuðunum september til nóvember á nýliðnu ári, en sömu mánuði árið 2003. Sé litið á söluna yfir árið, frá nóvember 2003 til nóvember 2004 varð hún 12.3% meiri en árið þar á undan. Stöðug vöruþróun er við úrvinnslu og markaðssetningu og greinilegt er af þessum tölum að íslenskir neytendur halda tryggð við lambakjötið. Það er ekki undarlegt, enda er það holl gæðafæða og má lesa nánar um það í grein eftir Ólaf Reykdal matvælafræðing hér undir Aðsendar greinar á strandir.saudfjarsetur.is

Í tilefni af þessum góðu fréttum fyrir sauðfjárbændur og því að nú er nýlokið skammdegishátíð hrútanna hafði fregnritari strandir.saudfjarsetur.is tal af forsvarsmönnum þeirra afurðastöðva sem Strandabændur skipta flestir við. 

Hjá Afurðastöð KS á Sauðárkróki varð Ágúst Árnason fyrir svörum. Hann sagði slátrun hafa gengið vel á liðnu hausti, öllum útflutningi hefði verið lokið fyrir áramót og búið væri að gera að fullu upp við bændur vegna útflutningsskyldunnar. Mest væri flutt út til Færeyja, en nú hefði líka verið selt til Frakklands, Belgíu, Holllands og á Spán. Kaupendur þar væru mjög ánægðir með vöruna og væru væntanlegir í heimsókn á sumri komanda til að treysta frekar viðskiptin. Hins vegar hafði gengisþróun krónunar verið útflutningi óhagstæð og t.d. væri verulegt tap á gæruútflutningi. Innanlandssala hefur gengið vel og nú um áramót hefði um helmingur af haustinnleggi hjá Afurðastöð KS verið seldur. Ágúst þakkaði Strandabændum fyrir samskiptin á liðnum árum og sagðist vonast til að sjá sem flesta í viðskiptum á hausti komanda.

Sigurður Jóhannesson hjá Sölufélagi Austur-Húnvetninga þakkaði Strandamönnum samskiptin og óskaði þeim velfarnaðar á árinu 2005. Hann sendi meðfylgjandi pistil: "Sala dilkakjöts hefur gengið vel hjá Sölufélagi Austur Húnvetninga. Þrátt fyrir aukna slátrun á liðnu hausti eru birgðir dilkakjöts álíka miklar og fyrir ári síðan. Verð á mörkuðum er þó fulllágt og hátt gengi krónunar hefur haft þau áhrif að skilaverð fyrir útflutning er lægra en reiknað var með. Búið er að ganga frá verði á gærum og verða þær greiddar 23. febrúar. Reiknað er með að fyrirkomulag slátrunar verði með svipuðu sniði og á liðnu ári. Nauðsynlegt er að geta boðið erlendum kaupendum ferskt dilkakjöt frá miðjum júlí fram undir miðjan nóvember, því það er forsenda þess að hærra útflutningsverð náist. Nánari upplýsingar um málefni félagsins má nálgast á heimasíðu þess, www.sahun.is."

Ragnhildur H. Jónsdóttir deildarstjóri afurðasviðs KVH (Kaupfélags Vestur-Húnvetninga) sendi þennan pistil: "Af okkur er það að frétta að slátrað var rúmlega 66 þúsund fjár í haust. Nú þegar hafa 190 tonn af þeirri slátrun selst á erlenda markaði og innanlandssala gengið vonum framar. Fullnaðaruppgjör fyrir kindakjöt á innanlandsmarkað innlagt til 31. desember hefur þegar farið fram, ennfremur hafa verið greiddar 68.- krónur á kíló upp í útflutning. Þá er lokið afreikningi á slátri og gærum. Greiddar eru 80 kr. á stykki fyrir dilkaslátur og kr 80,- fyrir stykkið af dilkagærum en 20 kr á stykkið fyrir ærgærur. Við viljum nota tækifærið og óska öllum innleggjendum og velunnurum KVH gæfuríks komandi árs með þökkum fyrir samstarfið á liðnu ári."