24/06/2024

Lákaklettur við Miðdalsá

300-lakakletturSöguþáttur eftir Jón Jónsson
Í landi jarðarinnar Kirkjubóls við sunnanverðan Steingrímsfjörð, er örnefnið Lákaklettur. Á það við um klettavegg sem blasir við ofan við veginn, rétt fyrir utan Miðdalsá og sumarbústaðinn Árból sem þar stendur. Lákaklettur er um það bil kílómetra frá bænum á Kirkjubóli. Nokkur saga er á bak við nafnið á Lákakletti, sem líklegt er að fáir þekki núorðið. Kirkjuból var nefnilega þingstaðurinn í Tungusveit fyrr á öldum, þar sem héraðsdómur var haldinn á þeim tímum Íslandssögunnar sem dauðarefsing lá við ýmsum brotum. Þar sem þannig háttar til eru víða þekktir aftökustaðir.

Lákaklettur er einn af þessum aftökustöðum og í örnefnaskrám fyrir Kirkjuból segir að munnmæli séu um að þarna hafi verið tekinn af lífi þjófur sem kallaður var Láki.

Sagnfræðingurinn Már Jónsson skrifaði nýverið stóráhugaverða bók sem gefin var út á vegum Strandagaldurs árið 2008 og bar titilinn Galdrar og siðferði í Strandasýslu á síðari hluta 17. aldar. Þar birtir Már og útskýrir margvíslega dóma og tilkynningar frá alþingi og héraðsdómum frá þessu tímabili. Svo skemmtilega vill til að þarna birtist einmitt fróðleikur um Láka sem Lákaklettur er kenndur við og hægt er að fræðast örlítið um sögu hans. Þannig staðfesta skjölin sem Már dregur fram í dagsljósið munnmælin um aftökustaðinn á Kirkjubóli.

Refsingar við þjófnaði á þessum tíma

Á þessum tíma voru lögin og viðurlög við brotum hörð. Smáþjófnaður varðaði sekt til konungs og skaðabótum, en viðurlögin voru hýðing ef verðmæti þess sem stolið var þótti meira en 6 álnir eða eyrir. Við annað slíkt brot voru menn brennimerktir, hýddir við þriðja brot og hengdir við fjórða.

Ef andvirðið var ein mörk (sem jafngildir 8 aurum) var dómurinn fyrir slíkan stórþjófnað sekt upp á 13 merkur til konungs eða útlegð af landinu. Lífið misstu menn við annað slíkt brot. Ef andvirði þess sem var stolið var meira en tvær merkur misstu menn allt sitt lausafé eða greiddu 13 merkur í sekt af fasteign og voru hýddir að auki. Líflát lá við öðru broti. Þjófar voru ávallt hengdir þegar til lífláts kom.

Drengurinn Þorlákur Þorsteinsson

Magnús Jónsson sýslumaður á Ströndum var mættur á alþingi á Þingvöllum sumarið 1676 með fanga í járnum. Dreng sem hét Þorlákur Þorsteinsson. Hann hafði verið dæmdur og hýddur heima í héraði árið áður fyrir þjófnað sem metinn var meiri en hálf mörk (4 aurar).

Ekki hafði hann lært mikið af hýðingunni, en haldið uppteknum hætti og orðið uppvís að stórþjófnaði um vorið. Fannst mönnum þó of harkalegt að dæma hann strax til dauða, enda hefði fyrsta brotið verið smáþjófnaður, ekki náð einni mörk. Þótti þingmönnum hæfilegt að hann héldi lífinu, en yrði hins vegar hýddur rækilega, fengi „hæstu húðlátsrefsingu sem næst lífi gangi“. Var svo ályktað að ef hann stæli oftar yrði hann líflátinn. Var Láki síðan hýddur á Þingvöllum 1. júlí 1676.

Þriðji þjófnaðurinn og aftaka Þorláks

Í Alþingisbókum ársins 1677 kemur í ljós að Þorlákur hélt sig enn við sama heygarðshornið. Til alþingis hafði borist póstur um útlit hans og auðkenni og stóð til að lýsa eftir Láka sem hafði látið sig hverfa eftir þriðja þjófnaðinn. Sú lýsing var því miður ekki lesin upp og skráð í Alþingisbækurnar, því hann hafði þá þegar verið handtekinn heima í héraði. Var hann dæmdur til dauða fyrir þriðja þjófnaðinn og var þeim dómi framfylgt á Kirkjubóli sumarið 1677, í takt við niðurstöðu Alþingis árið áður.

Aðstæður við Lákaklett eru þannig að líklegt er að aftakan hafi farið þannig fram að rekaviðardrumbur hafi verið lagður fram af klettinum. Síðan hefur væntanlega verið borið grjót eða farg á þann enda sem á klettinum lá, en Láki hengdur í endanum sem út af stóð. Hann hefur síðan verið dysjaður einhvers staðar í grenndinni ef að líkum lætur, utan kirkjugarðs. Á þessum tíma mátti ekki jarðsetja sakamenn, sjálfsmorðingja og óskírð ungabörn í vígðri mold. Þessir hópar voru hinir eiginlegu utangarðsmenn fyrri alda, þeir sem ekki áttu samleið með öðrum innan veggja kirkjugarðanna eftir dauðann.

Faðir Láka lendir í hremmingum

Sögunni af Láka er þó ekki alveg lokið, því sama sumar og aftakan fór fram lenti faðir hans, Þorsteinn Þorláksson, í nokkrum hremmingum vegna hans. Kom í ljós að Láki hafði komið þýfi fyrir til geymslu hjá föður sínum, nýjum sauðsvörtum buxum og 2 álnum af hvítu gjaldvaðmáli sem metið var til tveggja aura.

Sagði Þorsteinn að hann hefði nú alltaf hugsað sér að láta lýsa þessum verðmætum og skila þeim, þó það hefði dregist á langinn hjá sér. Þó sú saga virðist ekkert sérstaklega trúverðug var Þorsteini gefinn kostur á að ljúka þessu máli með því að sanna mál sitt með eiði, án þess að vera tekinn til fanga. Féll dómur um þetta á Felli sem var þingstaður Kollfirðinga. Var einnig tekið til umræðu á alþingi síðar hvort Magnús sýslumaður Jónsson hefði metið þetta mál með réttum hætti sem varð svo niðurstaðan, enda var í lögréttu „auglýst hans góð og lofleg kynning“.

580-lakaklettur

Lákaklettur – ljósm. Jón Jónsson