27/12/2024

Lagasamkeppni fyrir Hamingjudaga

Hólmavík er best - hamingjulagið 2007Kristín S. Einarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri fyrir Hamingjudaga á Hólmavík sem verða haldnir fyrstu helgi í júlí í sumar. Ákveðið hefur verið að efna til lagasamkeppni vegna Hamingjudaga á Hólmavík 2010 og skemmtunar þar sem lögin verða spiluð og sigurlagið valið, en slík keppni var haldin fyrstu árin sem Hamingjudagar voru haldnir en féll því miður niður í fyrra. Að þessu sinni er frestur til að skila inn lagi í keppnina til 3. maí næstkomandi og skal skila texta lagsins á skrifstofu Strandabyggðar.

Heimilisfangið fyrir póstsendingar er Hamingjudagar á Hólmavík – lagasamkeppni, Hafnarbraut 19, 510 Hólmavík. Merkja skal texta með nafni lags og nafni og símanúmeri þess sem flytur lagið í úrslitakeppninni. Flytjandinn verður síðan tengiliður höfundar varðandi undirbúning og flutning lagsins í keppninni. Nafn höfundar ásamt heimilisfangi og símanúmeri skal fylgja með í lokuðu umslagi sem á að vera merkt með nafni lags og dulnefni höfundar.

Að þessu sinni er heimilt að flytja lagið með eigin undirleik á úrslitakeppninni, svo ekki er nauðsynlegt að skila inn Demo eða lokaútgáfu lagsins. Höfundur lagsins skuldbindur sig til að koma lokaútgáfu lagsins í þann búning sem hentar til spilunar í útvarpi fyrir 31. maí 2010.

Nánari upplýsingar gefur Kristín Sigurrós Einarsdóttir í síma 8673164 eða gegnum netfangið hamingjudagar@holmavik.is.